16.3.2012 | 17:34
Draumarnir..
Frá því ég var rétt rúmlega eins áratugs gamall vissi ég nákvæmlega hvað ég vildi með líf mitt. Ég vildi eignast mína fjölskyldu, konu til að vera með alla ævi, eignast með henni mörg börn, eignast íbúð og bíl, með garði...íbúðin þeas. Ég vildi helst ala börnin mín upp í sveit
Í dag á ég þrjú börn. Þau eru mín einu raunverulegu verðmæti. Ekki það að ég sé að gera lítið úr þeim verðmætum því að þetta er mesti ríkidómur sem ég get hugsað mér. Án þeirra væri ég afskaplega lítils virði í þessum heimi. Heimi þar sem allt þrífst á neikvæðni, kvarti og depurð og það oft yfir hlutum sem skipta raunverulega engu máli.
Í byrjun þessa árs hélt ég að líf mitt væri loksins eins og mig hafði alltaf dreymt um að það yrði. í lífi mínu voru þrjár konur sem fullkomnuðu líf mitt að því er ég taldi. Hún yndislega móðir mín sem er nú fallin frá, kærastan og svo drottningin sjálf, og nafna hennar mömmu, hún Svandís Katla dóttir mín. Nú er hún Svandís Katla ein um að fylla upp í kvenrými minnar veraldar. Það tekst henni reyndar án nokkurra vandamála. Ég sé mömmu mína í henni og hún Svandís Katla er mjög nösk á að sjá það hvenær pabba gamla vantar knús frá henni og þá sparar hún það ekki og splæsir nokkrum kossum með.
Draumurin sem ég átti sem strákur er enn til staðar, en þetta er draumur sem aldrei verður að veruleika. Í dag er sonur minn fimm ára gamall. Í draumum mínum eyddi ég afmælisdögum barna minna með þeim. Staðan er bara sú að ég er að bíða eftir að afmælisveislu sonar míns ljúki svo ég geti farið með pakka til hans. Þótt börnin mín séu eins fullkomin og hægt sé að hugsa sér, bæði í fegurð og persónuleika þá er stórt tóm í mínu lífi varðandi þau. Planið var aldrei að verða helgarpabbi. Á nokkura ára fresti mun ég fá að njóta þess að vera með þau á afmælisdegi þeirra og öðrum stórum dögum, en annars þarf ég að treysta á að fá að hitta þau á þeim dögum, og það hefur ekki alltaf gengið eftir, og allra síst án átaka.
Draumurinn um börnin hefur ræst, konurnar hef ég átt nokkrar, íbúðina og bílinn svo það er kannski rétt að segja að draumurinn hafi ræst eftir allt saman? Nei ég get ekki sagt það. Ég hef alltaf sagt (alltaf lesist sem eftir að ég þroskaðist smá) að maður á að vera þakklátur fyrir það sem maður á. Og guð veit að ég þakka daglega fyrir börnin mín. Það er bara sárar en orð geta lýst að þurfa að vera fjarlægi pabbinn, að þurfa að sætta sig við að vera faðir í hlutastarfi. Það er eitthvað sem ég mun aldrei sætta mig við og það var hálfgert sjokk þegar ég áttaði mig á því að hann Birnir Smári minn er orðinn fimm ára...árin líða og börnin eldast og það virðist ekkert vera neitt sem ég get gert til þess að fá börnin mín meira. Áður en ég veit af verða börnin mín "litlu" komin í grunnskóla, Yngvi minn í háskóla og ég orðinn miðaldra maður sem upplifði aldrei stóra drauminn minn, að vera besti pabbi í heimi, besti maki og búa með öllum mínum gullum.
En það lærir maður með tímanum að sumir draumar verða bara draumar, eins og aðrir rætast. Draumurinn að eignast börnin hefur ræst, og það sem ég hef lært með hann Yngva minn að það að vera pabbi stoppar ekki, eða verður minna mikilvægt þótt börnin eldist. Það hef ég einmitt lært af foreldrum mínum, þau hafa ekki síður verið mér ómetanleg eftir að ég varð fullorðinn. Ég hef því sett mér það sem markmið að rífa mig upp úr vælinu og njóta þess að vera sá pabbi sem ég get verið (er ekki mottó bandaríska hersins "be all you can be". Þegar allt kemur til alls þá væri það rosalega lélegt af mér að vera að vorkenna mér fyrir mína stöðu í dag því að ég er að hluta til ábyrgur fyrir henni eins og nánast öllu sem gerist í mínu lífi. Staðreyndin er líka sú að ég er heilbrigður maður, á vonandi slatta af árum eftir, á þrjú heilbrigð börn og svo margt annað til að vera sáttur við.
Innilega til hamingju með daginn elsku Birnir minn. Þú ert yndislegur stór afleggjari að eiga!
Um bloggið
Óskar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.