26.3.2012 | 00:17
Að vera góður pabbi
Það er eitt af því sem mig hefur alltaf dreymt um. Að vera góður pabbi. Ég hef alltaf talið mig vera það...meira að segja áður en ég varð pabbi. Guð, og flestir sem þekkja mig vita að ég hef gert mitt allra besta, þótt ekki hafi það alltaf tekist. Um þessar mundir virðist það ekki vera að takast, þó ég sjái það ekki sjálfur. Á milli þess sem börnin mín eru hjá mér bíð ég eftir að fá þau aftur og þegar þau fara aftur finn ég fyrir sorg í hjarta.
Að vera einstæður faðir á íslandi getur verið þungt. Ég gleymi því aldrei þegar sálfræðingur sýslumanns sagði í fyrsta tíma þegar ég var að ganga í gegnum skilnað. "Þú veist að þú færð ekkert nema hún samþykki það" Á þeirri stundu áttaði ég mig á því að þetta yrði erfið barátta. í gegnum árin hafa verið margar stundir þar sem ég hef verið við það að gefast upp. Aðal markmiðið mitt var að reyna að halda öllu góðu. Það eru líklegast stærstu mistökin mín hingað til. Því að eins og ég áttaði mig á þegar sonur minn varð fimm ára í síðustu viku...þá flýgur tíminn hvort sem maður er að njóta hans eða ekki. Fyrr en varir verða öll börnin mín orðin stór og ég hef misst af langstærstum hluta lífs þeirra.
Ég er samt svo þakklátur fyrir hverja stund sem ég fæ með þeim. Ég á hann Yngva minn sem er að fara að fermast eftir innan við mánuð. Hann er ekki bara sonur minn heldur einn minn besti og nánasti vinur. Við getum rætt allt og styðjum hvorn annan í gegnum allt...og það þrátt fyrir að stærsta hluta lífs hans hef ég ekki verið með honum. Tíminn sem ég átti með Svandísi og Birni þessa helgi einkenndist af þvílíkri ást sem ég fékk frá þeim, og þau auðvitað frá mér. Þau voru bæði svo ljúf og góð og splæstu knúsum og fallegum orðum eins og enginn væri morgunndagurinn.
Nú er ég á þeim stað að ég þarf að finna út úr því hvort ég eigi að vera sáttur við stöðuna eða hvort það verði að fara út í leiðindi. það er eitthvað sem ég vill alls ekki en börnin mín eru allt sem ég á, allt sem ég hef nokkurn tíman þráð og þau eru eins fullkomin og nokkur börn geta verið. Ég hef reynt allt, til að gera hlutina rétt, í gegnum tíðina. Það hefur svo sannarlega ekki tekist. En ég er, og verð, pabbi þeirra og ég mun alltaf vera þeim til halds og traust þegar ég fæ færi á því...að vera pabbi þeirra. Ég myndi láta lífið fyrir hvert og eitt þeirra og það mun aldrei nokkurn tíman einhver komast upp með að særa þau. Að vera faðir þeirra er ekki kvöð, heldur forréttindi og ég þakka fyrir það á hverjum degi að fá að vera faðir svona yndislegra og vel gerðra barna. Ég syrgi það aftur á móti tvo þriðju hvers mánaðar að fá ekki að vera það.
Mig dreymir um að eiga fjölskyldu...lifa fjölskyldulífi. Mig dreymir um að eiga mína konu, vera með mínum börnum og njóta lífsins. það hef ég víst reynt, og líklegast of mikið því að árangurinn hefur verið hreint út sagt hörmulegur enda er ég í dag húsnæðislaus eftir heldur snubbóttan endi á annars ágætu sambandi. Börnin mín þurftu á sama tíma að kveðja þann stöðugleika sem var komið í líf þeirra og var það skelfileg upplifun að fara í gegnum það með dóttur minni hvaða breytingar væru í gangi. Að ekki bara væri amma hennar dáin heldur væri hún búin að missa vinkonu sína sem henni þykir svo vænt um. Það gerist samt víst ekkert nema maður láti á það reyna og ef maður lætur lífið líða áfram án þess að taka áhættu þá missir maður af því.
Að finna jafnvægið á milli þess að vera góður faðir og að vera þess á milli "einhver" í augum "einhvers" er eitthvað sem lærist kannski. Ansi mörg hafa ráðin flogið síðustu mánuði og allir vita hvernig á að haga lífinu núna. Flestir hafa skoðun, af því þeim er ekki sama. Þeir sem standa mér nærri hafa horft á mig lenda á þeim nokkrum veggjunum. Ég er aftur á móti annað hvort svo vitlaus, eða of bjartsýnn (jafnvel bæði) og ég trúi því að lífið hafi upp á svo margt að bjóða fyrir okkur. Ég leyfi mér jafnvel að trúa því að ég verði einhvern daginn eins mikill pabbi og lífið getur boðið mér upp á
Um bloggið
Óskar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.