Hálft ár

Alla jafna finnst mér hálft ár ekki langur tími. Fyrir 7 mánuðum síðan var líf mitt í svolítið öðrum farvegi en það er núna. Þá voru að koma jól. Ég var búinn að kaupa jólatré og við fjölskyldan búin að undirbúa allt sem þurfti og spennan fyrir aðfangadegi jóla var mikil enda var þetta í fyrsta skiptið í svo mörg ár sem ég hafði MÍNA fjölskyldu til að elda mat með og eyða jólunum með. Mamma og pabbi voru úti á Kanarí og mér leið eins og loksins væri það jafnvægi komið á í mínu lífi sem ég hafði leitast eftir svo lengi. Þennan dag fann ég loksins jólagjöfina sem ég hafði leitað af í meira en mánuð handa konunni og búið var að kaupa gjafirnar handa erfingjunum. Jólaskapið sem ég hafði ekki fundið í mörg ár var komið aftur og ég hef sjaldan brosað jafn mikið. Mánuði síðar lést hún elskulega mamma mín. Þótt baráttuandinn væri enn til staðar hjá henni þá gaf líkaminn undan því gífurlega álagi sem hafði verið lagt á hann.

Sambandsslit, húsnæðismissir, krabbameins hræðsla, umgengismál og margt annað tók við á næstu mánuðum. Síðasta hálfa árið hef ég lært meira um mig og fólkið í kringum mig en mig langaði. Öfugt við það sem ég bjóst við þá stóð ég þetta allt af mér og stend í dag sterkari en ég hef nokkurn tíman verið. Það voru vissulega forréttindi að eiga þó hana mömmu mína þessi 35 ár og fá allan þann lærdóm sem hún gat gefið mér. Hún mamma mín var nefnilega harðari en flest allt. Hún bar ekki tilfinningarnar utan á sér en hún steig inn í þegar henni fannst þess þurfa. Hún átti verkefni eftir sem hana langaði til að klára og hún hafði spurningar sem hana vantaði svar við. Ég og mamma áttum samtal nokkrum dögum áður en hún kvaddi okkur. Við ræddum fjölskyldumálin, ástandið á samskiptum okkar systkina, ég reyndi að svara spurningum hennar um það sem ég gat varðandi síðari barnsmóður mína og af hverju sumir hlutir voru sagðir um þau og af hverju sumir hlutir voru gerðir, þótt mín svör væru meira og minna ágiskanir. Ég og mamma áttum okkar rimmur í gegnum tíðina enda bæði skapmikil og ákveðin í skoðunum en það skiptir mig rosalega miklu að vita að við vorum sátt þegar hún lést. Hún skildi mína stöðu en hafði þó áhyggjur af mér. Sumt af því sem var sagt þarna mun aldrei nokkurn tíma verða rætt um aftur við nokkurn mann. Ég heyri ennþá röddina hennar mömmu sem var veik en ákveðin á þessum tíma. Þetta samtal hefur gert það að verkum að ég hef náð að koma mér í gegnum ansi margt síðustu mánuði. Ég veit þó að mamma hefði sussað og sveijað ansi oft yfir öllum þeim vitleysum og mistökum sem ég gerði síðustu mánuði...og eflaust gerði hún það bara án þess að ég vissi af.

Ég sakna mömmu óendanlega mikið. Maður má samt ekki gleyma sér í því sem maður hefur misst heldur þakka fyrir það sem maður hefur átt og enn frekar það sem maður á. Ég hef nefnilega eignast stóra fyrirmynd síðustu ár. Ég horfi á hann pabba minn og segi við sjálfan mig. Svona vill ég vera. Mig langar til að fjölskyldan mín sjái mig eins og ég sé hann.

Þótt ég sé hærri en pabbi þá er ég kettlingur við hliðina á manninum. Maðurinn er tröll að burðum og hefur alltaf verið mun sterkari líkamlega en ég. Þrátt fyrir allan þann andlega styrk sem hann hefur gefið mér undarfarna mánuði næ ég honum aldrei heldur á því sviði. Það gildir einu hvernig ég ber mig saman við hann þá næ ég ekki að standast samanburðinn. Styrkurinn og virðingin sem pabbi sýndi í veikindum mömmu var óhugnanlega mikill. Auðvitað komu tímar þar sem veggurinn féll, en alltaf sá hann til þess að við vissum að hann stæði sterkur við hlið mömmu. Hún var eins örugg og hægt var að vera. Mömmu skorti ekki neitt sem hægt var að útvega og þegar hún endaði uppi á spítala sat hann þar kvöldin löng eftir vinnu, við hlið konunnar sem hann hafði verið giftur í áratugi. Þegar hún svo lést var löngu ferðalagi þeirra beggja lokið. Álagið, sem hann þó aldrei kvartaði undan, var farið og eftir stóðu tilfinningar sem ég ætla ekki að skilgreina fyrir hann. Það hlutverk sem hann hafði verið í síðustu ár var búið og við tók sorgarferli og söknuður. Fyrstu dagana hjálpuðumst við systkinin að. Jarðaförin var skipulögð og eftir að henni var lokið tók grámyglaður hversdagsleikinn við..án mömmu með allar þær tilfinningar sem því fylgdu. Að eiga hann föður minn að er ómetanlegt. Ráð mömmu og stuðningur og kraftur pabba hafa haldið mér á floti. Stuðningur hans síðustu mánuði hefur gefið mér kraft til að klára af það verkefni sem er í gangi af jákvæðni og trú á að betri hlutir muni gerast í lok þessa verkefnis.

Þrátt fyrir allt má ég þakka fyrir að hún mamma mín hefur lagt sitt af mörkum við að hjálpa mér að bæta mig (damage controle??)og náði að gera helling af því áður en hún lést. Fólk minnist svo oft á hve mikilvægt er að eiga góðua mömmu...En ég á heimsins besta og harðasta pabba!

Ást og virðing til þín pabbi minn, sem hefur staðið eins og klettur þegar þess hefur þurft. Þú ert ómetanlegur fyrir mína fjölskyldu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Óskar

Höfundur

Óskar
Óskar

38 ára gutti. Faðir þriggja fallegra barna, sonur, bróðir og eflaust eitthvað fleira sem hægt er að klína á mig

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...dscn0840
  • Tríoið mitt
  • ...img_5865
  • Ofsalega ertu skrítinn pabbi
  • IMG_6087

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband