25.2.2013 | 11:09
Fyrirgefðu...
Það er stundum erfitt að segja þetta orð. En það er nauðsynlegt því að ég, eins og allir aðrir, gerum mistök og komum jafnvel illa fram af og til. Eins erfitt og það er fyrir marga að segja þetta þá er það mörgum erfitt að heyra þetta og meðtaka..hvað þá að vinna úr afsökunarbeiðni. Á að fyrirgefa og halda áfram eða ekki.
Yngri börnin mín tvö telja árekstrum sín á milli ekki lokið fyrr en "það seka" hefur beðist afsökunar. Þar er komin þvinguð afsökunarbeiðni, oftast af foreldri, en það barn sem taldi brotið á sér telur málinu lokið þegar afsökunarbeiðnin er komin. Einstaka sinnum veit annað þeirra að það gekk of langt, og td ef dóttir mín meiðir bróður sinn þá kemur einlæg afsökunarbeiðni frá henni..Henni líður bara hræðilega ef hún meiðir einhvern. Það er þó ekki sjálfgefið að einlægu afsökunarbeiðninni sé tekið af bróður hennar enda telur hann sig mun eldri og þroskaðri og ráða svolítið miklu í þeirra sambandi.
Á meðan þvingaðri afsökunarbeiðni er tekið til að stilla til friðar og einlægri er hafnað gildir einu...Sáttum er náð innan nokkura mínútna og málið er dautt.
Ég er alveg skelfilega þrjóskur einstaklingur og með réttlætiskennd sem er sterkari en góðu hófi gegnir. Ég er aftur á móti svolítið sjálfsgagnrýninn og kemst fljótt af því ef mér hefur orðið á í messunni. Stundum heldur þrjóskan aftur af úrlausnum mála..Sérlega ef sært stolt er fyrir hendi (þettahelvítisstoltsemgerirengumgott) Oft kemur að þeirri stundu að mér finnst ég hafa brugðist rangt við aðstæðum, komið illa fram og eflaust sagt eitthvað sem hefði betur verið látið ósagt, burtséð frá sannleiksgildi. Þá finn ég þörfina á að biðjast afsökunar.
Á fullorðinsárum erum við svo uppfull af sjálfum okkar og stolti okkar að það er nánast aldrei sem afsökunarbeiðni er tekin góð og gild án frekari árekstra.
Átök síðasta árs hafa gert mig þannig að ég er orðinn seinn til átaka. Ef einhver ágreiningur er óleystur þá vill ég klára hann af eftir bestu getu. Ef ég hef komið illa fram þá finnst mér ég ekki verða að biðjast afsökunar...Það er meira þannig að ég finn þörf hjá mér og mig langar til að biðjast afsökunar. Þetta telja sumir ákveðið veikleikamerki því að mjög margir tengja beint saman afsökunarbeiðni og fyrirgefningu. Staðreyndin er reyndar sú að ekki bara eru þetta ólíkir hlutir heldur standa þeir oftast hjá sitt hvorum aðilanum
Fólk biðst eflaust afsökunar á mismunandi forsendum. Ég er hreinlega svo sjálfhverfur að þegar ég biðst afsökunar er ég ekki að leita eftir fyrirgefningu. Það er plús ef hún kemur en ég biðst afsökunar af því ég veit að ég hef ástæðu til þess og hef ekki komið rétt fram. Ég biðst afsökunar af því mér er ekki sama. Ég hef þrisvar sinnum á stuttum tíma beðist afsökunar á mismunandi hlutum og út úr því hafa komið þrjár mismunandi útgáfur af viðbrögðum. Engin þeirra viðbragða sem komu voru nei, ég get ekki fyrirgefið, já þér er fyrirgefið eða nein ákveðin viðbrögð að jákvæðu tagi. Í öll skiptin komu viðbrögð, en í engu þessara tilvika kom viðbragð tengt afsökunarbeiðninni heldur tengd einhverjum öðrum tilfinningum þeirra.
Ég er svo hrokafullur og sjálfhverfur að ég get ómögulega tekið þessi viðbrögð til mín, en í staðinn hef ég hugsað mikið um alla þessa tilgangslausu árekstra sem við viðhöldum vegna þrjósku, stolts eða einhvers annars og hve lengi við látum þá vara. Á meðan börnin mín hafa vit á því að klára málin, halda áfram brosandi og njóta lífsins þá er fullorðna fólkið upptekið af sínum bardögum í stað þess að velja þá bardaga sem þarf að taka og nýta orkuna í jákvæða hluti. Þegar ég biðst afsökunar þá er ég að biðjast afsökunar af einlægni, koma mínu til skila og taka ábyrgð á mínu. Með því er ég ekki að heimta fyrirgefningu, og hvað þá að opna fyrir umræður og árásir út frá því. Stærstu mistökin eru þegar fólk telur afsökunarbeiðni vera veikleikamerki....Ónei ;)
Ég biðst afsökunar á að hafa þurft að deila þessu með ykkur ...
DJÓK!
Um bloggið
Óskar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.