Tvö ár...

Í dag eru tvö ár síðan mamma kvaddi. Þegar þetta er skrifað vantar klukkustund upp á tímann þar sem ég mamma töluðum síðast saman. Ég held í höndina á henni og segi. Mamma.. þú veist ég elska þig! Mamma leit í áttina að mér og sagði... Ég held ég geri það bara líka...

Ég veit að mamma var orðin ringluð þarna en svarið er samt svo í anda hennar. Mamma var manneskja gjörða en ekki orða. Hún var bara ekki alin þannig upp að hún væri að tala mjúklega eða segja hluti eins og „Ég elska þig“. Efaðist maður einhverntíman um það?..Nei ekki eina sekúndu því að mamma og pabbi sáu alltaf til þess að við hefðum allt sem við þurftum og maður fann það vel að á bak við hverja gjörð til okkar var hrein ást og væntumþyggja.

Síðan mamma lést hefur allt í lífinu breyst. Börnin mín eru blessunarlega ennþá þarna. Yngvi orðinn unglingur, Birnir orðinn skólastrákur og Svandís, nafna ömmu sinnar, er að klára leikskólann og líkist ömmu sinni orðið ansi mikið finnst mér.

Ég er maður orða minna, en einnig maður gjörða. Bæði hefur ítrekað komið mér í vandræði eða skapað óvild annara. Réttlætiskennd mín er sterkari en góðu hófi gegnir, þótt sannarlega sé ég ekki maður sem fær englastympilinn í bráð. Enda sækist ég ekki eftir honum. Við uppeldi barna minna tók ég allt það besta, og ekki var það lítið, úr uppeldi því sem foreldrar mínir gáfu mér og ég bætti þvi við sem mér fannst vanta. Börnin eru ekki enn farin að segja mér að þegja þegar ég segist elska þau upp úr þurru í 17. Skiptið þann daginn og það er ekkert eðlilegra í okkar sambandi en að tala um tilfinningar, vanlíðan, vellíðan, og hvað okkur vantar til að líða betur. Að mínu mati er samband mitt og barna minna einstaklega innilegt og ljúft.. Þó svo þeim finnist pabbinn skamma þau af furðulega litlu tilefni... En þar er pabbinn ósammála. Ég er ráðalaus gagnvart unglingnum. Stundum langar mig til að húðskamma hann...bara til að muna hvernig það er að skamma hann... Drengurinn stendur sig einfaldlega betur en hægt er að ætlast til af 15 ára unglingi.

Í fljótu bragði fannst mér ég ekki kominn langt á þessum tveimur árum síðan hún elsku mamma mín kvaddi. Ég þurfti þó að hugsa lengi áður en ég gat náð sáttum við sjálfan mig yfir minni stöðu í dag. Það er langur vegur farinn síðan þú fórst mamma mín þótt nokkur leið sé enn í land.

Þeir sem þekkja mig vel vita að næstu vikurnar eftir að mamma lést sleit kærastan sambandinu, ég varð heimilislaus, fékk ágiskun frá lækni um að líklegast væri ég með krabbamein í höfði, sem reyndist svo við skoðun vera blettir út frá ennisholusýkingu ásamt nokkrum fleiri hlutum.

Ég hafði þó börnin mín elskuleg og okkar umgengni. En þá fór barnsmóðir mín í umgengnismál, sem lauk ekki fyrr en í september það sama ár. Ég var ekki sterkur fyrir þarna en þetta hjó ansi nærri mér. Það kláraðist þó og lífið heldur áfram.

Ástæðan fyrir að ég nefndi réttlætiskenndina er sú að hún hefur ítrekað komið mér í vandræði, og er það ekki nema nýlega sem ég áttaði mig á hvað ég þarf að gera til að minnka áreitið í kringum mig. Ég þarf einfaldlega að velja hverja ég vill standa upp fyrir og verja ef þess þarf. Það sem kenndi mér þetta var atvik sem ég lenti í nýverið.

Í litlu samfélagi þar sem fólk stundar áhugamál henti einn félagi þar fram fullyrðingu um að hann og tveir aðrir liðsfélagar hans hefði, eins og hann orðaði það, riðið ungri fallegri dömu sem þar var nýbyrjuð að mæta í þetta samfélag. Mér fannst það óþolandi hugsun, þar sem lítið er að kvenfólki í þessu samfélagi, og hefur lengi verið talað um að fjölga konum þar, að hún skyldi þurfa að sitja undir svona sögusögnum. Þar sem ég vill vita hvar ég hef fólk, og hún taldi hann vinsamlegan, ákvað ég að segja henni frá þessari fullyrðingu hans. Lætin sem hafa fylgt í kjölfarið hafa verið farsakennd hjá þessum dreng, persónuleg níð, hótanir um ofbeldi, lygar ásamt fleiru.  Henni fannst þetta óþægileg staða og yrti því ekki á mig eftir þetta. Þarna kaus ég klárlega að láta réttlætiskenndina stjórna mér út í vandræði fyrir manneskju sem er ekki þess virði.

Ég hef á þessu tímabili einnig misst náinn vin sem ég hafði alltaf staðið vaktina fyrir, að hluta til, vegna orða annara manneskja og þar á meðal minnar þáverandi. Það er svolítið mitt vandamál að ég ber tilfinningar mínar utan á mér og hef mikla tjáningarþörf. Ég segi það sem mér finnst og ég er eins heiðarlegur og ég get. Hluti að mínu verkefni síðustu tvö ár hefur verið að vanda valið á hverja ég hef nærri mér. Ég hef fengið nokkra gagnrýni fyrir að loka á fólk sem lét mér líða illa en maður sem hefur ekki meiri höft á tilfinningum sínum og tjáningu þarf að hafa fámennan en góðan hóp í kringum sig. Ég er búinn að horfa upp á ótrúlegustu manneskjur tengjast þegar ég kýs að eiga ekki frekari samskipti við aðila. Ég hef horft upp á aðila sem ítrekað hafa talað mjög ósmekklega um hvert annað tengjast af því eðlilega er það ekki góð tilfinning þegar einhver lokar á mann af því þú kýst ekki að eiga samskipti við þannig manneskju. Það fann ég vel þegar ég missti þennan vin minn

Verkefni mitt síðustu tvö ár hefur hreinlega verið að reyna að ná aftur fyrri styrk, ná upp fyrra sjálfsmati og verða maðurinn sem ég vill vera. Það hefur ekki alltaf gengið sem skyldi og að sjálfsögðu eru fullt af stundum, og orðum sem ég vildi að ég gæti tekið til baka og hef dregið lærdóm af. Staðreyndin er aftur á móti sú að hópurinn sem ég hef í kringum mig í dag er verulega traustur og þéttur, fámennur en einstaklega góðmennur. Þeir fáu sem eru mér enn nánir, af þeim sem voru mér nánir þegar mamma dó, eru þeir sem hafa verið tilbúnir til að standa af sér þá tíma sem mér leið skelfilega og var ekki upp á mitt besta. Það er fólkið sem sá að ég var að vinna hart í því að styrkja mig og verða betri maður. Fólkið sem sá breytingu af því það sá hvaða var að gerast, en horfði ekki bara á hvað hafði gerst.

Það að missa mömmu í blóma lífs síns gerði það að verkum að ég sá að ég þyrfti að gera betur og ég þyrfti að gera það sem ég þurfti, og þarf, til að njóta lífsins meira. Ég er tengdari börnum mínum í dag en ég hef nokkurntíman verið. Ég er búinn að tengjast systur minni og fjölskyldu hennar aftur, sem er ómetanlegt og samband okkar pabba hefur aldrei verið betra. Þeir fáu vinir sem ég á eru ómetanlegir og ég veit nákvæmlega hvert ég ætla að stefna á þessu ári. Það er mikil vinna fyrir höndum hjá mér en það er vinna sem ég fagna og hlakka til að horfa á börnin mín stækka og verða enn nánari þeim og ég hlakka ekki minna til að vera vinur vinur minna áfram.

Í dag er ákveðinn „núll punktur“ hjá mér. Ég ætla ekki að velta mér upp úr fortíðinni lengur og enn síður velta fyrir mér orðum og ákvörðunum fólks sem er ekki í mínu lífi lengur. Ég tel mig góðan faðir og ætla mér að vera enn betri. Ég er góður vinur og ætla að verða enn betri vinur og fjölskyldunni verð ég áfram til aðstoðar ef þarf. Ég ætla að halda áfram með fiskreksturinn minn, er að stofna ehf og í dag byrja ég að flytja dótið í nýju íbúðina mína.

Ég veit þú verður mér styrkur í þessu öllu elsku mamma mín. Söknuðurinn er mikill ennþá og verður alltaf enda varst þú alltaf stoð mín og stytta og beindir mér á rétta braut þegar þess þurfti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Óskar

Höfundur

Óskar
Óskar

38 ára gutti. Faðir þriggja fallegra barna, sonur, bróðir og eflaust eitthvað fleira sem hægt er að klína á mig

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...dscn0840
  • Tríoið mitt
  • ...img_5865
  • Ofsalega ertu skrítinn pabbi
  • IMG_6087

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband