23.9.2015 | 00:13
Auðmjúkur.
Kominn heim eftir blautt og kalt kvöld. Finn reyndar fyrst fyrir bleytunni og kuldanum núna eftir að ég er kominn heim. Gæsahúðin í kvöld stafaði hvorki af kulda né bleytu.
Ég er einn af þeim sem er búinn að vera í nokkur ár harður stuðningsmaður Íslands í Knattspyrnu. Var líklegast áhorfandi áður, en í dag er ég stuðningsmaður. Við köllum okkur Tólfur, af því við viljum að okkar áhrif á leikinn jafnist á við auka leikmann inni á vellinum fyrir Ísland...semsagt. Tólfta leikmanninn. Við höfum staðið okkur nokkuð vel í að styðja karlalandsliðið, en ég veit, og við vitum mörg, innan Tólfunnar að við höfum ekki stutt kvennalandsliðið vel og það hefur pirrað okkur.
það hljómar kannski eins og væl, en fyrir mann eins og mig, að verða fertugur, out of shape, þá taka þessir leikir á. Á morgunn verð ég raddlaus af því við mættum á leik Íslands og Hvíta Rússlands í kvöld. Við vorum svekkt með mætinguna. Of margir af þeim sem voru búnir að melda sig mættu ekki. Það kom okkur á óvart því við vorum nokkur búin að vera ofur spennt, og margir búnir að lýsa því sama yfir.
Í dag vorum við nokkur í samskiptum af því við vildum sýna stelpunum þá sömu virðingu og við sýnum strákunum. Við reyndum að semja ný lög um stelpurnar, og yfirfærðum einhver af karla lögunum yfir á þær og miðað við stuttan tíma, og reyndar með frábærri innkomu strákanna í Kobacabana náðum við að standa okkur nokkuð vel. Þegar í ljós kom að við yrðum færri en við vonuðumst til var einfaldlega tekið meira á því og við prófuðum ýmislegt sem við höfum ekki prófað fyrr, eins og að færa okkur um set og kalla sjálfir á milli. Það var einnig rosalega gaman hve börnin voru virk og kunnu lögin okkar. Fyrir þeim er ekkert eðlilegra en að öskra sig hás, eins og við gerum ansi oft.
Í kvöld lögðum við okkur fram við að gera það sem okkur hefur langað lengi. Að sýna stelpunum að við erum líka Tólfan þeirra. Það var frábært, það var æðislegt að vera Tólfan þeirra, og feedbackið og kveðjurnar frá þeim í lokin og á twitter eftir á gera mig hálf vandræðalegan. Í staðinn fyrir að þær horfi á það að við höfum ekki gert nógu vel við þær í fortíðinni þá fögnuðu þær okkur þegar við loks létum sjá okkur.
Ég hef horft á marga leiki með þeim síðustu ár og þetta eru ekki einhverjar stelpur að sparka bolta. Þetta eru íslenskar valkyrjur, atvinnukonur vel flestar, og þær sem eru það ekki í dag verða það. Þetta er stolt okkar og forréttindi að fá að styðja við landsliðin okkar í dag og ég hef fulla trú á því að Tólfum mun fjölga á næstu leikjum og markmið Tólfunnar er að það þurfi að opna báðar stúkur á kvennaleikjum í framtíðinni. Boltinn sem þær spila er frábær, áhorfendur tóku vel undir með okkur og framtíðin er svo sannarlega björt, hvort sem það er á knattspyrnusviðinu eða í Tólfunni því ungdómurinn sýndi það svo um munar að þau eru tilbúin til að taka slaginn með okkur.
Verðlaun okkar Tólfufólks er vanalega úrslitin þegar þau eru góð. Því er það frábært þegar landsliðsfólkið okkar, sem við dýrkum og setjum á stall fyrir ofan flest annað fólk sýnir okkur þá virðingu, og þá tengingu sem við fengum frá bæði Frey og stelpunum í kvöld. Ég gekk auðmjúkur og hamingjusamur út af Laugardalsvelli í kvöld og ég mun mæta margfalt grimmari og skipulagðari á næsta heimaleik kvennalandsliðs Íslands.
Áfram Ísland!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2014 | 13:40
Tvö ár...
Í dag eru tvö ár síðan mamma kvaddi. Þegar þetta er skrifað vantar klukkustund upp á tímann þar sem ég mamma töluðum síðast saman. Ég held í höndina á henni og segi. Mamma.. þú veist ég elska þig! Mamma leit í áttina að mér og sagði... Ég held ég geri það bara líka...
Ég veit að mamma var orðin ringluð þarna en svarið er samt svo í anda hennar. Mamma var manneskja gjörða en ekki orða. Hún var bara ekki alin þannig upp að hún væri að tala mjúklega eða segja hluti eins og Ég elska þig. Efaðist maður einhverntíman um það?..Nei ekki eina sekúndu því að mamma og pabbi sáu alltaf til þess að við hefðum allt sem við þurftum og maður fann það vel að á bak við hverja gjörð til okkar var hrein ást og væntumþyggja.
Síðan mamma lést hefur allt í lífinu breyst. Börnin mín eru blessunarlega ennþá þarna. Yngvi orðinn unglingur, Birnir orðinn skólastrákur og Svandís, nafna ömmu sinnar, er að klára leikskólann og líkist ömmu sinni orðið ansi mikið finnst mér.
Ég er maður orða minna, en einnig maður gjörða. Bæði hefur ítrekað komið mér í vandræði eða skapað óvild annara. Réttlætiskennd mín er sterkari en góðu hófi gegnir, þótt sannarlega sé ég ekki maður sem fær englastympilinn í bráð. Enda sækist ég ekki eftir honum. Við uppeldi barna minna tók ég allt það besta, og ekki var það lítið, úr uppeldi því sem foreldrar mínir gáfu mér og ég bætti þvi við sem mér fannst vanta. Börnin eru ekki enn farin að segja mér að þegja þegar ég segist elska þau upp úr þurru í 17. Skiptið þann daginn og það er ekkert eðlilegra í okkar sambandi en að tala um tilfinningar, vanlíðan, vellíðan, og hvað okkur vantar til að líða betur. Að mínu mati er samband mitt og barna minna einstaklega innilegt og ljúft.. Þó svo þeim finnist pabbinn skamma þau af furðulega litlu tilefni... En þar er pabbinn ósammála. Ég er ráðalaus gagnvart unglingnum. Stundum langar mig til að húðskamma hann...bara til að muna hvernig það er að skamma hann... Drengurinn stendur sig einfaldlega betur en hægt er að ætlast til af 15 ára unglingi.
Í fljótu bragði fannst mér ég ekki kominn langt á þessum tveimur árum síðan hún elsku mamma mín kvaddi. Ég þurfti þó að hugsa lengi áður en ég gat náð sáttum við sjálfan mig yfir minni stöðu í dag. Það er langur vegur farinn síðan þú fórst mamma mín þótt nokkur leið sé enn í land.
Þeir sem þekkja mig vel vita að næstu vikurnar eftir að mamma lést sleit kærastan sambandinu, ég varð heimilislaus, fékk ágiskun frá lækni um að líklegast væri ég með krabbamein í höfði, sem reyndist svo við skoðun vera blettir út frá ennisholusýkingu ásamt nokkrum fleiri hlutum.
Ég hafði þó börnin mín elskuleg og okkar umgengni. En þá fór barnsmóðir mín í umgengnismál, sem lauk ekki fyrr en í september það sama ár. Ég var ekki sterkur fyrir þarna en þetta hjó ansi nærri mér. Það kláraðist þó og lífið heldur áfram.
Ástæðan fyrir að ég nefndi réttlætiskenndina er sú að hún hefur ítrekað komið mér í vandræði, og er það ekki nema nýlega sem ég áttaði mig á hvað ég þarf að gera til að minnka áreitið í kringum mig. Ég þarf einfaldlega að velja hverja ég vill standa upp fyrir og verja ef þess þarf. Það sem kenndi mér þetta var atvik sem ég lenti í nýverið.
Í litlu samfélagi þar sem fólk stundar áhugamál henti einn félagi þar fram fullyrðingu um að hann og tveir aðrir liðsfélagar hans hefði, eins og hann orðaði það, riðið ungri fallegri dömu sem þar var nýbyrjuð að mæta í þetta samfélag. Mér fannst það óþolandi hugsun, þar sem lítið er að kvenfólki í þessu samfélagi, og hefur lengi verið talað um að fjölga konum þar, að hún skyldi þurfa að sitja undir svona sögusögnum. Þar sem ég vill vita hvar ég hef fólk, og hún taldi hann vinsamlegan, ákvað ég að segja henni frá þessari fullyrðingu hans. Lætin sem hafa fylgt í kjölfarið hafa verið farsakennd hjá þessum dreng, persónuleg níð, hótanir um ofbeldi, lygar ásamt fleiru. Henni fannst þetta óþægileg staða og yrti því ekki á mig eftir þetta. Þarna kaus ég klárlega að láta réttlætiskenndina stjórna mér út í vandræði fyrir manneskju sem er ekki þess virði.
Ég hef á þessu tímabili einnig misst náinn vin sem ég hafði alltaf staðið vaktina fyrir, að hluta til, vegna orða annara manneskja og þar á meðal minnar þáverandi. Það er svolítið mitt vandamál að ég ber tilfinningar mínar utan á mér og hef mikla tjáningarþörf. Ég segi það sem mér finnst og ég er eins heiðarlegur og ég get. Hluti að mínu verkefni síðustu tvö ár hefur verið að vanda valið á hverja ég hef nærri mér. Ég hef fengið nokkra gagnrýni fyrir að loka á fólk sem lét mér líða illa en maður sem hefur ekki meiri höft á tilfinningum sínum og tjáningu þarf að hafa fámennan en góðan hóp í kringum sig. Ég er búinn að horfa upp á ótrúlegustu manneskjur tengjast þegar ég kýs að eiga ekki frekari samskipti við aðila. Ég hef horft upp á aðila sem ítrekað hafa talað mjög ósmekklega um hvert annað tengjast af því eðlilega er það ekki góð tilfinning þegar einhver lokar á mann af því þú kýst ekki að eiga samskipti við þannig manneskju. Það fann ég vel þegar ég missti þennan vin minn
Verkefni mitt síðustu tvö ár hefur hreinlega verið að reyna að ná aftur fyrri styrk, ná upp fyrra sjálfsmati og verða maðurinn sem ég vill vera. Það hefur ekki alltaf gengið sem skyldi og að sjálfsögðu eru fullt af stundum, og orðum sem ég vildi að ég gæti tekið til baka og hef dregið lærdóm af. Staðreyndin er aftur á móti sú að hópurinn sem ég hef í kringum mig í dag er verulega traustur og þéttur, fámennur en einstaklega góðmennur. Þeir fáu sem eru mér enn nánir, af þeim sem voru mér nánir þegar mamma dó, eru þeir sem hafa verið tilbúnir til að standa af sér þá tíma sem mér leið skelfilega og var ekki upp á mitt besta. Það er fólkið sem sá að ég var að vinna hart í því að styrkja mig og verða betri maður. Fólkið sem sá breytingu af því það sá hvaða var að gerast, en horfði ekki bara á hvað hafði gerst.
Það að missa mömmu í blóma lífs síns gerði það að verkum að ég sá að ég þyrfti að gera betur og ég þyrfti að gera það sem ég þurfti, og þarf, til að njóta lífsins meira. Ég er tengdari börnum mínum í dag en ég hef nokkurntíman verið. Ég er búinn að tengjast systur minni og fjölskyldu hennar aftur, sem er ómetanlegt og samband okkar pabba hefur aldrei verið betra. Þeir fáu vinir sem ég á eru ómetanlegir og ég veit nákvæmlega hvert ég ætla að stefna á þessu ári. Það er mikil vinna fyrir höndum hjá mér en það er vinna sem ég fagna og hlakka til að horfa á börnin mín stækka og verða enn nánari þeim og ég hlakka ekki minna til að vera vinur vinur minna áfram.
Í dag er ákveðinn núll punktur hjá mér. Ég ætla ekki að velta mér upp úr fortíðinni lengur og enn síður velta fyrir mér orðum og ákvörðunum fólks sem er ekki í mínu lífi lengur. Ég tel mig góðan faðir og ætla mér að vera enn betri. Ég er góður vinur og ætla að verða enn betri vinur og fjölskyldunni verð ég áfram til aðstoðar ef þarf. Ég ætla að halda áfram með fiskreksturinn minn, er að stofna ehf og í dag byrja ég að flytja dótið í nýju íbúðina mína.
Ég veit þú verður mér styrkur í þessu öllu elsku mamma mín. Söknuðurinn er mikill ennþá og verður alltaf enda varst þú alltaf stoð mín og stytta og beindir mér á rétta braut þegar þess þurfti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2013 | 11:09
Fyrirgefðu...
Það er stundum erfitt að segja þetta orð. En það er nauðsynlegt því að ég, eins og allir aðrir, gerum mistök og komum jafnvel illa fram af og til. Eins erfitt og það er fyrir marga að segja þetta þá er það mörgum erfitt að heyra þetta og meðtaka..hvað þá að vinna úr afsökunarbeiðni. Á að fyrirgefa og halda áfram eða ekki.
Yngri börnin mín tvö telja árekstrum sín á milli ekki lokið fyrr en "það seka" hefur beðist afsökunar. Þar er komin þvinguð afsökunarbeiðni, oftast af foreldri, en það barn sem taldi brotið á sér telur málinu lokið þegar afsökunarbeiðnin er komin. Einstaka sinnum veit annað þeirra að það gekk of langt, og td ef dóttir mín meiðir bróður sinn þá kemur einlæg afsökunarbeiðni frá henni..Henni líður bara hræðilega ef hún meiðir einhvern. Það er þó ekki sjálfgefið að einlægu afsökunarbeiðninni sé tekið af bróður hennar enda telur hann sig mun eldri og þroskaðri og ráða svolítið miklu í þeirra sambandi.
Á meðan þvingaðri afsökunarbeiðni er tekið til að stilla til friðar og einlægri er hafnað gildir einu...Sáttum er náð innan nokkura mínútna og málið er dautt.
Ég er alveg skelfilega þrjóskur einstaklingur og með réttlætiskennd sem er sterkari en góðu hófi gegnir. Ég er aftur á móti svolítið sjálfsgagnrýninn og kemst fljótt af því ef mér hefur orðið á í messunni. Stundum heldur þrjóskan aftur af úrlausnum mála..Sérlega ef sært stolt er fyrir hendi (þettahelvítisstoltsemgerirengumgott) Oft kemur að þeirri stundu að mér finnst ég hafa brugðist rangt við aðstæðum, komið illa fram og eflaust sagt eitthvað sem hefði betur verið látið ósagt, burtséð frá sannleiksgildi. Þá finn ég þörfina á að biðjast afsökunar.
Á fullorðinsárum erum við svo uppfull af sjálfum okkar og stolti okkar að það er nánast aldrei sem afsökunarbeiðni er tekin góð og gild án frekari árekstra.
Átök síðasta árs hafa gert mig þannig að ég er orðinn seinn til átaka. Ef einhver ágreiningur er óleystur þá vill ég klára hann af eftir bestu getu. Ef ég hef komið illa fram þá finnst mér ég ekki verða að biðjast afsökunar...Það er meira þannig að ég finn þörf hjá mér og mig langar til að biðjast afsökunar. Þetta telja sumir ákveðið veikleikamerki því að mjög margir tengja beint saman afsökunarbeiðni og fyrirgefningu. Staðreyndin er reyndar sú að ekki bara eru þetta ólíkir hlutir heldur standa þeir oftast hjá sitt hvorum aðilanum
Fólk biðst eflaust afsökunar á mismunandi forsendum. Ég er hreinlega svo sjálfhverfur að þegar ég biðst afsökunar er ég ekki að leita eftir fyrirgefningu. Það er plús ef hún kemur en ég biðst afsökunar af því ég veit að ég hef ástæðu til þess og hef ekki komið rétt fram. Ég biðst afsökunar af því mér er ekki sama. Ég hef þrisvar sinnum á stuttum tíma beðist afsökunar á mismunandi hlutum og út úr því hafa komið þrjár mismunandi útgáfur af viðbrögðum. Engin þeirra viðbragða sem komu voru nei, ég get ekki fyrirgefið, já þér er fyrirgefið eða nein ákveðin viðbrögð að jákvæðu tagi. Í öll skiptin komu viðbrögð, en í engu þessara tilvika kom viðbragð tengt afsökunarbeiðninni heldur tengd einhverjum öðrum tilfinningum þeirra.
Ég er svo hrokafullur og sjálfhverfur að ég get ómögulega tekið þessi viðbrögð til mín, en í staðinn hef ég hugsað mikið um alla þessa tilgangslausu árekstra sem við viðhöldum vegna þrjósku, stolts eða einhvers annars og hve lengi við látum þá vara. Á meðan börnin mín hafa vit á því að klára málin, halda áfram brosandi og njóta lífsins þá er fullorðna fólkið upptekið af sínum bardögum í stað þess að velja þá bardaga sem þarf að taka og nýta orkuna í jákvæða hluti. Þegar ég biðst afsökunar þá er ég að biðjast afsökunar af einlægni, koma mínu til skila og taka ábyrgð á mínu. Með því er ég ekki að heimta fyrirgefningu, og hvað þá að opna fyrir umræður og árásir út frá því. Stærstu mistökin eru þegar fólk telur afsökunarbeiðni vera veikleikamerki....Ónei ;)
Ég biðst afsökunar á að hafa þurft að deila þessu með ykkur ...
DJÓK!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2012 | 13:10
Vertu karlmaður!
Það er svo margt sem þarf að laga í þessu samfélagi okkar. Mörg málefni sem liggja á okkur og svo margir sem virðast engan áhuga hafa á því hvernig náunganum líður. Eitt af því sem maður hugsar um fyrir hverja verslunarmannahelgi er... Hve margar nauðganir ætli verði um helgina??
Að hugsa til þess að ungar stúlkur og konur leggi upp í helgi sem þær ætla sér að verði frábær skemmtun. Þær leggja af stað með góða skapið og þetta skal verða frábær helgi. En svo.. hittir svo skelfilega til að þær verða á vegi viðbjóðslegs ofbeldismanns sem hefur einhverja sjúka hvöt til að níða kvenfólk og beita þær ofbeldi og hlaupa svo út í myrkrið í von um að finnast aldrei. Ég þekki fleiri konur en ég get talið sem hafa lent í slíkum viðbjóði. Ég þekki tvo karlmenn sem hafa lent í slíku ofbeldi.
Í staðinn fyrir að stúlkan/konan eigi frábæra helgi þá stendur hún allt í einu í þeirri stöðu að vera særð sári sem hún mun kannski aldrei jafna sig á. Nauðgun hefur oft verið nefnd sálarmorð og það er alls ekki að ástæðulausu. Kerfið er þannig að bara það að kæra er gert ólísanlega erfitt verkefni og hvað þá að fá dóm. Samfélagið hefur sem betur fer lagast með sitt viðhorf. Einu sinni var talið að nauðgarar væru bara menn sem áttu erfitt með að fá að ríða og fólk spurði sig stundum hvort konan hafi boðið upp á þetta með djörfum klæðaburði eða orðum. Skömmin var oft hennar.
Í dag vitum við sem er að nauðgarar eru flestir búnir að skipuleggja verknaðinn og eru ekkert annað en sjúkir ofbeldismenn. Kerfði er samt enn eins og það þarf rosalega viðhorfsbreytingu hjá okkur karlmönnum til að stoppa þessa ræfla sem læðast um í myrkrinu og vonast til að enginn sjái andlitið á þeim. Nauðgarar eru ein sú lægst setta lífvera á jörðinni hvað mig varðar. Þetta eru ekki menn heldur eru þetta mannleysur sem geta ekki hamið sig í að fróa sjúkri þörf sinni í að níðast á þeim sem hafa ekki líkamlega burði til að verjast þeim.
Ég skora á alla karlmenn að hugsa um þetta áður en við förum inn í helgina. Horfum í kringum okkur og sýnum að við erum ekki mannleysur. Höfum pung til að stíga inn í þar sem þess þarf. Ef að við horfum upp á svona aðstæður án þess að bregðast við þá erum við meðsekir...Ekki gagnvart lögunum kannski frekar en nauðgararnir heldur ber okkur siðferðisleg skylda til að gera eitthvað í málinu.
Ég kvíði fyrir tölunum á mánudaginn. Það er óhugnanleg tilfinning að vita að það verður stúlkum nauðgað um helgina og það er ömurlegt að geta ekkert gert í því.
Verum karlmenn um helgina, fylgjumst með og fjandakornið breytum hugsanagangi okkar varðandi þessu mál. þetta er sjúkur veruleiki sem lifir aðalega innan samfélag karla og því ber okkur karlmönnum að gera eitthvað í þessu.
Vertu vakandi með mér um helgina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2012 | 11:28
Hálft ár
Alla jafna finnst mér hálft ár ekki langur tími. Fyrir 7 mánuðum síðan var líf mitt í svolítið öðrum farvegi en það er núna. Þá voru að koma jól. Ég var búinn að kaupa jólatré og við fjölskyldan búin að undirbúa allt sem þurfti og spennan fyrir aðfangadegi jóla var mikil enda var þetta í fyrsta skiptið í svo mörg ár sem ég hafði MÍNA fjölskyldu til að elda mat með og eyða jólunum með. Mamma og pabbi voru úti á Kanarí og mér leið eins og loksins væri það jafnvægi komið á í mínu lífi sem ég hafði leitast eftir svo lengi. Þennan dag fann ég loksins jólagjöfina sem ég hafði leitað af í meira en mánuð handa konunni og búið var að kaupa gjafirnar handa erfingjunum. Jólaskapið sem ég hafði ekki fundið í mörg ár var komið aftur og ég hef sjaldan brosað jafn mikið. Mánuði síðar lést hún elskulega mamma mín. Þótt baráttuandinn væri enn til staðar hjá henni þá gaf líkaminn undan því gífurlega álagi sem hafði verið lagt á hann.
Sambandsslit, húsnæðismissir, krabbameins hræðsla, umgengismál og margt annað tók við á næstu mánuðum. Síðasta hálfa árið hef ég lært meira um mig og fólkið í kringum mig en mig langaði. Öfugt við það sem ég bjóst við þá stóð ég þetta allt af mér og stend í dag sterkari en ég hef nokkurn tíman verið. Það voru vissulega forréttindi að eiga þó hana mömmu mína þessi 35 ár og fá allan þann lærdóm sem hún gat gefið mér. Hún mamma mín var nefnilega harðari en flest allt. Hún bar ekki tilfinningarnar utan á sér en hún steig inn í þegar henni fannst þess þurfa. Hún átti verkefni eftir sem hana langaði til að klára og hún hafði spurningar sem hana vantaði svar við. Ég og mamma áttum samtal nokkrum dögum áður en hún kvaddi okkur. Við ræddum fjölskyldumálin, ástandið á samskiptum okkar systkina, ég reyndi að svara spurningum hennar um það sem ég gat varðandi síðari barnsmóður mína og af hverju sumir hlutir voru sagðir um þau og af hverju sumir hlutir voru gerðir, þótt mín svör væru meira og minna ágiskanir. Ég og mamma áttum okkar rimmur í gegnum tíðina enda bæði skapmikil og ákveðin í skoðunum en það skiptir mig rosalega miklu að vita að við vorum sátt þegar hún lést. Hún skildi mína stöðu en hafði þó áhyggjur af mér. Sumt af því sem var sagt þarna mun aldrei nokkurn tíma verða rætt um aftur við nokkurn mann. Ég heyri ennþá röddina hennar mömmu sem var veik en ákveðin á þessum tíma. Þetta samtal hefur gert það að verkum að ég hef náð að koma mér í gegnum ansi margt síðustu mánuði. Ég veit þó að mamma hefði sussað og sveijað ansi oft yfir öllum þeim vitleysum og mistökum sem ég gerði síðustu mánuði...og eflaust gerði hún það bara án þess að ég vissi af.
Ég sakna mömmu óendanlega mikið. Maður má samt ekki gleyma sér í því sem maður hefur misst heldur þakka fyrir það sem maður hefur átt og enn frekar það sem maður á. Ég hef nefnilega eignast stóra fyrirmynd síðustu ár. Ég horfi á hann pabba minn og segi við sjálfan mig. Svona vill ég vera. Mig langar til að fjölskyldan mín sjái mig eins og ég sé hann.
Þótt ég sé hærri en pabbi þá er ég kettlingur við hliðina á manninum. Maðurinn er tröll að burðum og hefur alltaf verið mun sterkari líkamlega en ég. Þrátt fyrir allan þann andlega styrk sem hann hefur gefið mér undarfarna mánuði næ ég honum aldrei heldur á því sviði. Það gildir einu hvernig ég ber mig saman við hann þá næ ég ekki að standast samanburðinn. Styrkurinn og virðingin sem pabbi sýndi í veikindum mömmu var óhugnanlega mikill. Auðvitað komu tímar þar sem veggurinn féll, en alltaf sá hann til þess að við vissum að hann stæði sterkur við hlið mömmu. Hún var eins örugg og hægt var að vera. Mömmu skorti ekki neitt sem hægt var að útvega og þegar hún endaði uppi á spítala sat hann þar kvöldin löng eftir vinnu, við hlið konunnar sem hann hafði verið giftur í áratugi. Þegar hún svo lést var löngu ferðalagi þeirra beggja lokið. Álagið, sem hann þó aldrei kvartaði undan, var farið og eftir stóðu tilfinningar sem ég ætla ekki að skilgreina fyrir hann. Það hlutverk sem hann hafði verið í síðustu ár var búið og við tók sorgarferli og söknuður. Fyrstu dagana hjálpuðumst við systkinin að. Jarðaförin var skipulögð og eftir að henni var lokið tók grámyglaður hversdagsleikinn við..án mömmu með allar þær tilfinningar sem því fylgdu. Að eiga hann föður minn að er ómetanlegt. Ráð mömmu og stuðningur og kraftur pabba hafa haldið mér á floti. Stuðningur hans síðustu mánuði hefur gefið mér kraft til að klára af það verkefni sem er í gangi af jákvæðni og trú á að betri hlutir muni gerast í lok þessa verkefnis.
Þrátt fyrir allt má ég þakka fyrir að hún mamma mín hefur lagt sitt af mörkum við að hjálpa mér að bæta mig (damage controle??)og náði að gera helling af því áður en hún lést. Fólk minnist svo oft á hve mikilvægt er að eiga góðua mömmu...En ég á heimsins besta og harðasta pabba!
Ást og virðing til þín pabbi minn, sem hefur staðið eins og klettur þegar þess hefur þurft. Þú ert ómetanlegur fyrir mína fjölskyldu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2012 | 15:13
Kynfæri kvenna...
Þar til fyrir stuttu síðan hélt ég að kynfæri kvenna, hér eftir kallað vagínan væri sérlegt áhugamál okkar gagnkynhneigðra karlmanna og jú, kvenna er hneigjast að sínu kyni. Sem gagnkynhneigður maður hef ég jafnan sýnt þessu líffæri kvenna nokkurn áhuga, og jú einstaka öðrum líffærum og hlutum kvenmannsins líka að sjálfsögðu, en undanfarið hef ég komist að því að áhugi minn á vagínum virðist ekki nánda nærri jafn mikill og áhugi kvennana sjálfra á sínum kynfærum. Þetta hefur valdið mér miklum hugarangri enda hef ég ávallt talið mig framarlega í hópi aðdáenda. Síðustu mánuði hef ég aftur á móti lesið pistil eftir pistil eftir konur þar sem þær skrifa um vagínuna sína, og annara kvenna. Þær skrifa um álit sitt á áliti annara, almenningsálitinu (sem almenningur kannast oft ekki við), og þeim kröfum sem karlmenn gera á útlit, hirðingu og jafnvel þvermál þessara mögnuðu ganga sem okkur þykir svo mörgum eftirsóknarvert að kíkja í endrum og eins.
Sumir þessara pistla eru til fræðslu, aðrir gegn fordómum, aðrir skrifaðir af hreinum pirringi og enn fleiri skrifaðir vegna meintra fordóma og krafna samfélagsins til útlits kvenna og ekki síst þeirra allra heilagasta. Karlmenn eiga að gera kröfu á að ekki sé stingandi strá í nokkurri nálægð (eflaust gera það margir), barmarnir eiga að vera nákvæmlega á einhvern veg (sem ég veit ekki hver er) og þröng skal hún vera ásamt því að rakastig skal alltaf vera viðunandi og nægilegt til að tryggja skjótan aðgang! Eðlilega hefur hver sitt álit á því og hver sína skoðun. Ég er ekki að skrifa þetta til að koma minni á framfæri heldur var það annað sem ég var að hugsa þegar mig fór að langa að skrifa þetta.
Hvað sem öllum þessum pistlum líður og hve duglegar konur eru að skoða sína vinkonu, spegla hana og tjá sig um hana þá er það stundum skondið að hlusta á þessar umræður og lesa þessar greinar. Ég man ekki til þess að hafa séð karlmann skrifa um tittlinginn á sér, fordóma samfélagsins gegn smæð hans, stærðar, hve boginn hann er, hve stór kóngurinn er, hve illa konunni gengur að koma honum upp eða þá kröfu sem margar konur eru komnar með um snyrtingu á þessu svæði karla. Kannski ég ætti að fara að skrifa um þessi vandamál? Ég held það yrði í senn horft á mig með samúð og fyrirlitningu, enda hálf kjánalegt umræðuefni er það ekki?
Það hvernig kona er snyrt er eðlilega hennar mál. Annað útlit kemur frá náttúrunnar hendi og það er auðvitað misjafn hvað hverjum líkar. Ég elska aftur á móti að rökræða um hlutverk kynjana hér og þar og langar því að koma með nokkra punkta, reyndar setta fram meira í húmor en alvöru en í þeim er samt smá sannleikskorn. Ok..þetta er að mestu skrifað í fullri hreinskilni!
Að vera karlmaður í dag er frábært. Þeir tímar sem eru í dag eru þannig að ef maður fer í verslunarmiðstöð þá er nokkurs konar happy hour Gullfallegar konur ganga þar um og útsýnið er yndislegt. Skv. Sumum konum eru þessar konur svona vel til hafðar af því að við gerum kröfu á það..ekki af því þær hafa sig til fyrir sig. Konur eru meðvitaðri um það nú, en fyrir tíu árum að þær eru ábyrgar fyrir því líka hvað þær fá út úr lífinu og eru sem betur fer farnar að berjast fyrir því, tja í það minnsta biðja um það. Konur vilja sjálfstæðið sem þær verðskulda, virðinguna sem þær verðskulda og vera metnar fyrir það sem þær eru. (sumar átta sig ekki á því að þær verðskulda það líka þótt þeim líki það ekki). Þetta gildir um flest allt..þar á meðal kynlífið ....eða hvað?
Frásagnirnar eftir kynlíf eru oft skondnar. Ekki fyrir löngu síðan hlustaði ég á dömu tala um hve lélegur bólfélaginn hefði verið. Hún hafði hringt í hann heiman frá sér um miðja nótt þegar náttúran sagði til sín. Þau höfðu aldrei verið saman og hann var á skrallinu. Hún spurði drenginn hvort hann vildi ekki koma og " enter her pleasure tunnels ". Drengurinn að sjálfsögðu lét vaða á það. Hennar viðbrögð daginn eftir voru að gersamlega taka hann af lífi við vinkonu sína, fyrir framan mig. Framheilaskaðinn ég varð náttúrulega að spyrja. Þú stóðst þig samt rosalega vel er það ekki?....Ha? Forviða af undrun horfir hún á mig..Hvað meinar þú? Ég meina...Stóðst þú þig ekki vel...meina þú hlýtur að hafa performað rosalega vel fyrst þú getur skotið hann niður? Stúlkan vissi að ég kannast við strákinn og gæti hæglega spurt hann út í hennar frammistöðu ef út í það væri farið. Hún viðurkenndi að hafa nú ekki sýnt stórleik þrátt fyrir að láta stór orð falla í hans garð varðandi hans frammistöðu.
Þetta er rosalega algengt viðhorf hjá konum. They are to be served in bed! Ef að kynlífið er ekki gott þá er það af því að karlmaðurinn stendur sig ekki. Athugið. Ég segi algengt viðhorf. Þetta er ekki alhæfing. Langt því frá...En kryfjum þetta aðeins nánar.
Drengur og stúlka sýna hvoru öðru áhuga og ákveða að hleypa á skeið og skunda á skeiðvöllinn. Þau byrja að láta vel að hvoru öðru en eitthvað klikkar. Konan nær ekki nauðsynlegu rakastigi, eða hann nær honum ekki upp, konan fær ekki fullnæginguna sem hún sóttist eftir eða hann gerði hlutina ekki rétt. Hún rekur kannski tennur í félagann og hann missir allt " loft “ . Eða þá að hann getur bara ekki klárað sjálfur...Þetta gerist eflaust oft og það sem ég var að hugsa um er hver útkoman er þegar þau fara að kryfja hlutina í sitt hvoru lagi. Ég byrja á því að fara yfir hvernig hann myndi hugsanlega túlka þetta.
Drengurinn: Líklegt er að þetta snerti sjálfstraustið hjá drengnum enda þykir það niðurlægjandi að ná ekki vininum upp. Verra er jafnvel að ná ekki að bleyta konuna og skelfilegt er að að fullnægja ekki konunni þegar hún býst við að ná þeim hæðum. Líklegt er að hann segi söguna ekki nákvæmlega eins og hlutirnir fóru fram, ef hann tjáir sig um atburðinn yfir höfuð. Þetta gerist og getur verið vandræðalegt. Hann horfir svo á hlutina að þetta sé honum að kenna. Hann hafi klikkað og hann fær væntanlega ekki færi á að gera betur. Karlmenn nálgast þessa umræðu oftast með spurningum eins og. Hvernig var að setja í þessa? Nálgun á frekar ópersónulegan og töffaralegan hátt.
Stúlkan: Allar líkur eru á því, miðað við það sem ég hef hlustað á frá vinkonum ofl, að stúlkunni finnist hún illa svikin. Hún horfir á drenginn vonsvikin og finnst hann hafa algerlega brugðist. Að hann nái honum ekki upp, eða hann náði ekki einu sinni að bleyta hana...Eða hann endaði á að vera á fullu í lengri tíma án þess að svo mikið að fá það. Ótal sinnum hef ég heyrt kvenfólk afhausa karlmenn á þennan hátt fyrir framan vinkonur sínar, og aðra karlmenn. Meira að segja hef ég hlustað á konur tala svona um og við sína eigin menn. Þarna ætla ég ekki einu sinni að ræða þá karlmenn sem eru taldir með lítil typpi. Ég kann ekki að telja það hátt að ég geti farið með töluna um hve oft ég hef hlustað á kvenfólk gera grín að limastærð karla. (oftast um þig þá?? Hugsa eflaust einhverjir...Hver veit :)) Það fer inn í tilkynningaskilduna með öllu hinu, burtséð frá frammistöðu að öðru leiti. Vinkonurnar spyrja frekar út í hvernig hann var í rúminu og hvort hann hafi verið með viðunandi litla bróður en hvort kynlífið hafi verið gott í heildina.
Bottom line. Ef að drengurinn nær félaganum ekki upp þá er hann að klikka. Ef að hann nær ekki fullnægingu..þá er það af því eitthvað er að hjá honum. Ef hann nær ekki að bleyta konuna..þá er það af því hann er ekki að gera hlutina rétt. Ef að hann nær ekki að fullnægja konunni...þá er það af því að ..jú..hann er að klikka. Þegar drengurinn fer upp í rúm með stúlkunni veit hann að hann er ábyrgur fyrir því hver útkoman er og það er ekki bara sú stund sem er undir. Það er oft mannorðið líka.
Á meðan konur skrifa villt og galið um vagínur sínar og útlista fyrir umheiminum hve illa samfélaginu er að takast að takast á við og vinna úr þeim upplýsingum sem þær hrópa til okkar að þá eru karlmennirnir þöglir að mestu. Þeir skrifa ekki, né tala um typpið á sér enda þykir það frekar asnalegt. Þeir taka því þegjandi að mýtan í samfélaginu segir okkur að við karlmenn berum ábyrgð á að fullnægja okkur og konunum sem við stundum kynlíf með. Mér finnst þetta skemmtilegt og spennandi challenge svo lengi sem konan liggur ekki og bíður eftir refsingunni á meðan. En fyrir suma, sem eru ekki jafn uppfullir af sjálfum sér eins og ég er þetta ekki jafn jákvætt. Það sækjast allir eftir góðu kynlífi. Í mínum draumaheimi væru hlutirnir þannig að báðir aðilar horfðu sér nær og þannig myndu ótrúlegir hlutir geta farið af stað, burtséð frá lafandi skapabörmum, misrökuðum vagínum og stressuðum skaufum....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2012 | 13:35
Að vera karlmaður á stefnumóti...
Ég á nokkuð margar vinkonur. Sumar þeirra eru einhleypar, aðrar í sambandi og sumar âdatingâ. Hver sem sambandsstaða þeirra er í dag þá hafa þær allar farið einhverntíman á stefnumót og hef ég heyrt sögur frá ansi mörgum þeirra um hvernig þau stefnumót hafa farið.
Ástæðan fyrir að ég er að skrifa um þetta er að mér finnst þessi staða fyndin..Þe. að vera karlmaður á stefnumóti í dag. Ég er jafnvel meira að skrifa þetta í gríni en alvöru...en samt ;). Ég veit ekki hvort margir hafi hlustað á jafn margar konur lýsa yfir vanþóknun sinni á karlmönnum sem þær hafa farið á stefnumót. Það er samt mjög sjaldan sem ég hef heyrt nokkuð rangt af því sem mennirnir hafa gert á þessum stefnumótum. Þeirra hugsun var bara ekki samkvæm þeim stöðlum sem konan var búin að setja sér varðandi stefnumótið. Hvað má, hvað má ekki. Hvað á og hvað á ekki...hvað sleppur...Margar konur eru með þetta algerlega á hreinu. Þetta á karlmaður að gera á stefnumóti, framkvæma það þarna og á þennan máta. Það er eðlilegt að konan setji sér standarda fyrir manninn sem hún er að leggja próf á til að meta hvort hann sé vænlegur til frekari samskipta, og jafnvel undaneldis!
Að vera íslenskur karlmaður á stefnumóti er góð skemmtun..ef þú áttar þig á stöðunni. Svo lengi sem þú áttar þig á því að þú verður að hætta að giska á hvaða týpa þetta er sem þú ert á stefnumóti með. Margar konur leggja nefnilega fyrir þig próf á stefnimóti. Konur eru meistarar âtrick questionsâ Þær spyrja þig spurningar sem þú átt ca 3% líkur á að svara rétt. Ég hef hlustað á vinkonu lýsa stefnumóti sem hljómaði rosalega gott. Maðurinn var myndarlegur og kröftugur maður. Líkamsburðir hans voru henni að skapi og hann talaði mikið um börnin sín á stefnumótinu. Hann var jákvæður á lífið og tilveruna en hann klikkaði á einum hlut...sem gerði það að verkum að honum var sópað út af borðinu sem candidat í deit no 2. Þegar þau komu að kassanum eftir að hafa fengið sér að borða þá spurði hann ekki, heldur rétti bara kortið. Afgreiðslustúlkan gerði ráð fyrir því að þau væru par og renndi kortinu hans í gegn og hann greiddi því fyrir bæði. Þetta fannst minni algert turnoff og fannst hann vera hálfgerð karlremba. Hann kyssti hana svo á kinnina og þakkaði fyrir frábært deit...Hún svaraði honum svo ekki aftur eftir það.
Þar sem ég þekki aðeins til þessa manns sem var á stefnumótinu þá spurði ég hann einu sinni í forvitni um hvernig þetta hefði verið. Hann sagði að hann hefði verið heillaður af vinkonu minni og hún hefði verið rosalega skemmtileg. Hann skildi samt ekki hvað hefði klikkað því hún hefði virkað rosalega spennt. Hann sagðist mest svekktur yfir því að hann hefði verið fjandi blankur þarna og þegar hann rétti afgreiðslustúlkunni kortið sitt þá hefði hún rukkað hann um málsverð þeirra beggja. Ég borðaði núðlur tvo daga í röð eftir þetta af því afgreiðslukonan var svona snögg...og vinkona þín sagði ekki einu sinni takk Óskar!! Ég baðst afsökunar fyrir hönd vinkonunnar...En sagði henni þó ekki réttu útgáfu stefnumótsins og hve illa hún hefði klúðrað þessu. Það sem ég hef séð á vinkonum mínum, sumum hverjum, er að þær gleyma því stundum að þær þurfa að standast fleiri kröfur en að hafa frítt andlit og vera kvenkyns.
Þegar kemur að þvi að greiða fyrir stefnumót þá er rosalega misjafnt hvernig konur sjá hlutina. Sumar vilja fá að greiða sinn hluta, aðrar vilja âherramannâ sem býður þeim upp á veitingarnar, Sumar vilja einnig fá að bjóða manni...Alveg krefjast þess. Konur eru jafn mismunandi og þær eru margar en það sem mér finnst mjög sérstakt með fólk í dag sem fer á stefnumót og líkar flest það vel sem það sér en gengur í burtu vegna smáhluta. Ég get ekki talið mig hæfan til að meta manneskju 100% yfir kaffibolla..hvort sem það er hálftími eða klukkutími. Ég þekki ekki aðstæður ákvarðana sem eru teknar og ég sé hlutina eflaust allt öðruvísi en hinn aðilinn. En það er líka annað sem getur komið inn í þessa hluti.
Hvað ef að þér er boðið á stefnumót og þú ert verulega spennt/ur. Tímasetningin er samt slæm og þú ert ekki með jafn mikið á milli handanna eins og vanalega. Þegar stefnumótinu lýkur er það ljóst að það er ætlast til að þú greiðir fyrir stefnumótið. Þú veist að það er lokaprófið og það hvort að þú færð annan séns eða ekki hangir hugsanlega á þessari ákvörðun sem þú ert að fara að taka. Það eru eflaust nokkrar mismunandi aðferðir til að taka á þessu âvandamáliâ Ég held samt að flestir geti verið sammála um að ef að þetta er það sem lokar á framhald þá sé langbest að segja bara að maður sé fjandi blankur í augnablikinu og spyrja hvort það eigi ekki bara að splitta reikningnum. Ef að það er vandamál, þá ert þú laus við framtíðarvandamál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2012 | 23:04
Óskar..nú þarft þú bara að...
Eitt af því sem er svo skondið við að vera ég er að ég er með einstaklega mikla tjáningarþörf. Margir nota önnur orð yfir hana, fáranlega mikil, óþarflega mikil. Aðrir segja að sumu eigi ég að halda út af fyrir mig. Ég hef fengið, og fæ reglulega, pílur fyrir skrif mín á þessu bloggi. Ég hef skrifað of opið um andlát mömmu, og misst smá pung þar. Ég hef skrifað of mikið um sambandsslitin sem komu í kjölfarið og farið út fyrir friðhelgi sambandsins, og ég hef farið yfir strikið í skrifum mínum um forræðismálið sem er í gangi og vandræðin sem voru undanfari af þeim. Ég vissi alltaf að ég myndi fá viðbrögð, góð og slæm. Ég vissi að margir myndu dæma mig út frá skrifum mínum og bjóst ekki við öðru.
Það sem ég bjóst aldrei við er hve margir hafa sagst þekkja mig og vita margt um mig sem ekki stendur þarna. Fólk les á milli línanna og sér nákvæmlega hvað ég þarf og getur ráðlagt mér hvað varðar flest í mínu lífi. Það eru yfir 10 aðilar sem hafa boðið fram aðstoð sína. Sumir af heilum hug og fallegri hugsun. Finnst ég hafa gengið í gegnum nóg á þessu ári og eigi að passa mér. Margir segja að nú sé komið það stig í mínu lífi að ég á að vera einn. Ef ég ætli að eiga samskipti við konur þá á ég bara að vera að leika mér „play it“. Aðrir segja. Finndu þér bara eina sæta með skuldbindingafælni og hittu hana bara reglulega. Fleiri eru ráðin en sum varla prenthæf.
Það sem er skondið er að flestir eru að koma með ráð um það hvernig ég geti verðið mér úti um kynlíf án þess að tengjast konunum of mikið. Þetta er klárlega málið í dag á meðan þú ert að jafna þig á hvers kyns hlutum. Sérstaklega sambandsslitum. Ég segi bara fyrir mitt leiti að það að hoppa upp í rúm með einhverri til að klára sig af er ekki lækning við neinni sálarangist, vanlíðan eða erfiðleikum. Þvert á móti nota margir kynlíf sem deyfilyf á sársaukan. Ég veit ekki hvort að ég eigi að taka vin min alvarlega sem talar alltaf um að andlitið á mér líti út eins og rassgatið á mér og því séu allir að hafa áhyggjur af því að ég fái ekki kynlíf eða hvort að fólk sé bara að reyna að koma með ráð við einhverju sem það hefur ekki lausn á.
Það sem fáir virðast sjá, og átta sig á, er að í dag er ég á góðum stað í lífinu. Ég er heilbrigður „ungur“ maður sem á þrjú yndisleg og falleg börn, yndislegt heimili, frábæra vini, föður sem styrkir mig og styður í gegnum hvað sem er og yndislegar minningar um móður mína. Síðustu mánuði hef ég tekið nokkuð vel á því sem ég hef þurft að taka á og í dag er ég kominn á fullt í að fullkomna mína stöðu og gera hana eins og ég vill hafa hana. Víkingaþrekið, sjósundið, línuskautarnir, hjólið og hot yoga bíða. Klambratúnið verið notað óspart enda margir búnir að bjóða sig fram að koma út að leika og fleira og fleira. Síðasta sem ég hef áhyggjur af í dag er hvort ég eigi möguleika á að ná mér í kynlíf, hjásvæfu, kærustu, konu. Svoleiðis hlutir gerast þegar þeir gerast og hvort sem öðrum finnst það tímabært..þá gerist það sem mér finnst tímabært þegar það gerist. Ég aftur á móti geri hlutina á allt öðrum forsendum en ég hef gert þá áður...Veð ekki bara áfram sem hopless romantic og vona það besta.
Ég þekki marga á mínum aldri sem eru single. Margir eru það af því þeir vilja það. Aðrir hafa svipast um eftir ástinni lengi. Sumir eru að jafna sig eftir sambandsslit og aðrir hafa einfaldlega misst trú á hinu kyninu (eða sama) og leggja ekki í enn eitt vonlítið ferðalagið sem endar hvort eð er með sársauka og vonbrigðum. Mín skoðun á af hverju sambönd ganga svo oft illa upp er að heiðarleikann skortir oft frá upphafi. Oft heiðarleikann við sjálfan sig. Fólk er að fara út í sambönd óháð því hvort það sé tilbúið í það og notar svo fyrstu undankomuleið sem býðst þegar hlutirnir verða óþægilegir, svo þegar út í kjötheiminn er komið aftur á fólk oft til að finna fyrir einamanaleikanum og vilja þá reyna aftur.
Grasið virðist mörgum svo miklu grænna hinum megin. Svo þegar þú ert búinn að berjast yfir á hinn bakkann sérð þú allt í einu svo greinilega að svo er ekki. Þú sérð hvar þú klikkaðir og að þú ert líklegast búinn að klúðra þínu. Þá er það oft of seint.
Það hefur ekkert breyst að ég er hopless romantic. Mér finnst svo gott að vera kolfallinn fyrir konu og enn betra að hafa hana alltaf inni á heimilinu hjá mér. Það er gott að eiga félaga og vin sem maður getur deilt lífinu með, stutt, og fengið stuðning frá þegar þess er þörf. Fyrir mér er miklu skemmtilegra að fara að skemmta mér og koma heim til konunnar en að koma heim með konu sem ég man svo kannski ekki nafnið á daginn eftir. Kannski verður það einhvern tíman þannig hjá mér og jafnvel næ ég að hlekkja einhverja til framtíðar. Það eru þó ekki áhyggjuefni fyrir mig í dag, frekar en hvort ég, rasshausinn, eigi möguleika á að fá kynlíf. Áhyggjuefnin hjá mér í dag snúast nefnilega um mig fyrst og svo börnin mín.
Á fertugs aldrinum verðum maður nefnilega svo var við það að maður er að eldast. Maður er lengur að jafna sig eftir átök og það er erfiðara að gera hluti sem maður gerði auðveldlega áður. Maður er mynntur svo áþreyfanlega á að nú þarf maður að hugsa um heilsuna, bæði líkamlega og andlega og þannig get ég sinnt sjálfum mér og börnunum betur. Ég hlakka svo til að takast á við verkefni næstu mánaða og sjá árangur þess erfiðis sem hefur farið í síðustu mánuði.. Lífið er ljúft!
En ég þakka innilega fyrir ráðin, sem öll hafa verið góð, bara sum ekki fyrir mig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2012 | 00:17
Að vera góður pabbi
Það er eitt af því sem mig hefur alltaf dreymt um. Að vera góður pabbi. Ég hef alltaf talið mig vera það...meira að segja áður en ég varð pabbi. Guð, og flestir sem þekkja mig vita að ég hef gert mitt allra besta, þótt ekki hafi það alltaf tekist. Um þessar mundir virðist það ekki vera að takast, þó ég sjái það ekki sjálfur. Á milli þess sem börnin mín eru hjá mér bíð ég eftir að fá þau aftur og þegar þau fara aftur finn ég fyrir sorg í hjarta.
Að vera einstæður faðir á íslandi getur verið þungt. Ég gleymi því aldrei þegar sálfræðingur sýslumanns sagði í fyrsta tíma þegar ég var að ganga í gegnum skilnað. "Þú veist að þú færð ekkert nema hún samþykki það" Á þeirri stundu áttaði ég mig á því að þetta yrði erfið barátta. í gegnum árin hafa verið margar stundir þar sem ég hef verið við það að gefast upp. Aðal markmiðið mitt var að reyna að halda öllu góðu. Það eru líklegast stærstu mistökin mín hingað til. Því að eins og ég áttaði mig á þegar sonur minn varð fimm ára í síðustu viku...þá flýgur tíminn hvort sem maður er að njóta hans eða ekki. Fyrr en varir verða öll börnin mín orðin stór og ég hef misst af langstærstum hluta lífs þeirra.
Ég er samt svo þakklátur fyrir hverja stund sem ég fæ með þeim. Ég á hann Yngva minn sem er að fara að fermast eftir innan við mánuð. Hann er ekki bara sonur minn heldur einn minn besti og nánasti vinur. Við getum rætt allt og styðjum hvorn annan í gegnum allt...og það þrátt fyrir að stærsta hluta lífs hans hef ég ekki verið með honum. Tíminn sem ég átti með Svandísi og Birni þessa helgi einkenndist af þvílíkri ást sem ég fékk frá þeim, og þau auðvitað frá mér. Þau voru bæði svo ljúf og góð og splæstu knúsum og fallegum orðum eins og enginn væri morgunndagurinn.
Nú er ég á þeim stað að ég þarf að finna út úr því hvort ég eigi að vera sáttur við stöðuna eða hvort það verði að fara út í leiðindi. það er eitthvað sem ég vill alls ekki en börnin mín eru allt sem ég á, allt sem ég hef nokkurn tíman þráð og þau eru eins fullkomin og nokkur börn geta verið. Ég hef reynt allt, til að gera hlutina rétt, í gegnum tíðina. Það hefur svo sannarlega ekki tekist. En ég er, og verð, pabbi þeirra og ég mun alltaf vera þeim til halds og traust þegar ég fæ færi á því...að vera pabbi þeirra. Ég myndi láta lífið fyrir hvert og eitt þeirra og það mun aldrei nokkurn tíman einhver komast upp með að særa þau. Að vera faðir þeirra er ekki kvöð, heldur forréttindi og ég þakka fyrir það á hverjum degi að fá að vera faðir svona yndislegra og vel gerðra barna. Ég syrgi það aftur á móti tvo þriðju hvers mánaðar að fá ekki að vera það.
Mig dreymir um að eiga fjölskyldu...lifa fjölskyldulífi. Mig dreymir um að eiga mína konu, vera með mínum börnum og njóta lífsins. það hef ég víst reynt, og líklegast of mikið því að árangurinn hefur verið hreint út sagt hörmulegur enda er ég í dag húsnæðislaus eftir heldur snubbóttan endi á annars ágætu sambandi. Börnin mín þurftu á sama tíma að kveðja þann stöðugleika sem var komið í líf þeirra og var það skelfileg upplifun að fara í gegnum það með dóttur minni hvaða breytingar væru í gangi. Að ekki bara væri amma hennar dáin heldur væri hún búin að missa vinkonu sína sem henni þykir svo vænt um. Það gerist samt víst ekkert nema maður láti á það reyna og ef maður lætur lífið líða áfram án þess að taka áhættu þá missir maður af því.
Að finna jafnvægið á milli þess að vera góður faðir og að vera þess á milli "einhver" í augum "einhvers" er eitthvað sem lærist kannski. Ansi mörg hafa ráðin flogið síðustu mánuði og allir vita hvernig á að haga lífinu núna. Flestir hafa skoðun, af því þeim er ekki sama. Þeir sem standa mér nærri hafa horft á mig lenda á þeim nokkrum veggjunum. Ég er aftur á móti annað hvort svo vitlaus, eða of bjartsýnn (jafnvel bæði) og ég trúi því að lífið hafi upp á svo margt að bjóða fyrir okkur. Ég leyfi mér jafnvel að trúa því að ég verði einhvern daginn eins mikill pabbi og lífið getur boðið mér upp á
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2012 | 13:20
Á 2 mánuðum..
Í dag eru tveir mánuður síðan hún mamma mín lést. Enn er þetta óraunverulegt og enn er ég stundum að stefna á heimsókn til hennar og pabba.
Það lærði ég af fereldrum mínum að maður stendur með sínum. Sama hvað gerist þá ert þú hluti af heild og þegar eitthvað bjátar á þá stígur fjölskyldan upp og styður við bakið á manni. Hann pabbi minn sýndi mér, í gegnum veikindi mömmu, hvernig maður ég vill vera og hvernig maki ég vill vera. Öll gengum við í gegnum tímabil sem við kunnum ekki á. Við systkinin misstum mömmu okkar, börnin okkar ömmu sína og hann pabbi missti konuna sína og lífsförunaut sem hafði fylgt honum nánast alla hans ævi. Mér fannst svo fallegt að horfa á fjölskyldu systur minnar vinna saman úr sorginni. Ég bæði dáðist að og öfundaði það mynstur sem þau höfðu. Öll stóðu þau í kringum Hafrúnu Lilju sem skildi aðstæðurnar voðalega illa, eldri börnin studdu hvort annað, Sólrún vakti yfir þeim og fékk alla þá ást til baka, eins og börnum hennar er einum gefið og Þorgils beið með útbreiddan faðminn þegar þess þurfti.
Maður myndi telja að þetta væri rosalega "basic" og ætti í rauninni að vera sjálfgefið. Einhverstaðar á lífsleiðinni hef ég safnað upp neikvæðu karma sem beit fast í rahúið á mér á þeirri stundu sem móðir mín lést. Því þetta sem átti að vera svo "basic" varð svo fjarlægt að ég er ekki enn farinn að trúa því.
Síðustu tveir mánuðir hafa verið allt annað en góðir. Í raun bara hreinn viðbjóður. Á móti kemur að í dag finnst mér ég það sterkur að enginn geti brotið mig, sem er náttúrulega helvítis vitleysa. En það dæmir mann enginn harðar en maður sjálfur og fyrir utan það er samfélagið fullt af fólki sem er boðið og búið til að brjóta þig niður. Til hvers að veita þeim aðstoð?
Ég hef í mörg ár unnið að því að gera mig að þeim manni sem ég vill vera. Nú hefur hann pabbi minn sýnt mér að ég er ekki hálfnaður í að vera sá maður sem hann er...Þvílíkur nagli! Ef ég hefði haft manneskju mér við hlið, líka honum, þegar mamma dó þá væri ég í ágætismálum í dag. Svo var þó ekki. Minn maki fann það út á dánarbeði móður minnar að við áttum ekki skap saman. Frá því að mamma dó hef ég þurft að umbylta öllu öðru í lífi mínu, verið án heimilis og þurft að kljást við ýmislegt sem ég hef ekki þurft að kljást við áður. Það að missa mömmu, sambýliskonuna og heimilið á sama tíma var eitthvað sem ég bjóst ekki við að þurfa að eiga við á sama tíma. Ég ætla þó ekki að segja að móðurmissirinn hafi einhvern sérstakan tilgang. Hann er og verður sár og á að vera þannig. Hitt aftur á móti, eins og svo margt annað í lífinu, endaði á að vera ljúfsár lexía.
Það hvar fólk er statt í lífinu er algerlega óháð aldri. Börnin mín þrjú, pabbi og systur mínar tvær eru ómetanlegar. Traustir vinir klikka ekki. Fjárhagstaðan gæti jú verið betri, er þó samt að fara að kasta fram summu til að staðgreiða fermingu sonar míns í næsta mánuði. Íbúðin kemur fyrsta mai og er hin glæsilegasta. Kattarhárin eru að mestu farin úr fatnaðinum mínum og barnanna, ég hef ekki stigið í kattaælu í góðan tíma og ekki fengið gagnrýni fyrir að missa gleðina vegna mömmu í góðan tíma. Ég hef ekki orðið einmanna, með aðra manneskju mér við hlið, í góðan tíma.. Ég hef aftur á móti brugðist mömmu með því að láta önnur vandamál skyggja á minningu hennar. Af hverju byrjaði ég á því að tala um að staða í lífinu sé óháð aldri? Jú af því að ég hef fengið áminningu fyrir því undanfarnar tvær vikur.
Í afmæli fyrir rúmum 2 vikum síðan sá ég um að taka myndir. Afmælisbarnið hef ég ekki þekkt lengi og bauðst því til að láta afmælisgjöfina vera að hún fengi fullt af myndum af gleðskapnum. Sjálfur var ég nýfluttur út eftir sambúðarslitin og kominn með skelina upp, baunaði fólki í burtu og bauð ekki upp á mikil samskipti...í það minnsta ekki jákvæð samskipti. Þegar á leið kvöld gekk á mig ung manneskja og tilkynnti mér að ég væri ekki þetta fífl sem ég væri að leika. Það væri bæði sársauki og góðmennska í augunum á mér. Það hvernig ég hefði talað um börnin mín hefði líka komið upp um mig. Þá sjaldan ég verð kjaftstopp en þarna varð ég það. Þar sem þessi manneskja er svo ung bægði ég skoðunum hennar í burtu, enda væru ekki miklar líkur á að eitthvað vitrænt kæmi frá "krakkanum" Þar sem ég var samt kjaftstopp þá hafði ég ekki um margt annað að velja en þegja og hlusta. Stundum er allt sem maður getur boðið upp á, að sitja og hlusta. Stundum er það allt sem er beðið um af þér. Ef þú getur ekki boðið upp á það þá hefur þú ekki mikið að bjóða. Ég hef þurft að taka hrokann minn og leggja hann til hliðar og sætta mig við það að þrátt fyrir mikla lífsreynslu þá get ég þegið ráð og aðstoð frá mun yngri manneskjum. Að hafa gott eyra sér við hlið þegar margt liggur á manni getur líka verið ómetanlegt, svo ég tali nú ekki um ef að úr munni sama höfuðs koma svo orð sem gera hlutina réttari og betri. Að leggja stoltið mitt til hliðar, þegja, hlusta og einnig tala hefur verið mér góður lærdómur síðustu vikur.
Síðustu tvær vikur hef ég tileinkað mömmu. Ég hef gert allt sem ég hef getað til að heiðra minningu hennar og síðustu tvær vikur hefur verið svo góður stígandi í mínu lífi. Takk fyrir áminninguna mamma mín og hvíldu í friði. Ég veit þú átt eftir að ýta við mér aftur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Óskar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar