Draumarnir..

Frá því ég var rétt rúmlega eins áratugs gamall vissi ég nákvæmlega hvað ég vildi með líf mitt. Ég vildi eignast mína fjölskyldu, konu til að vera með alla ævi, eignast með henni mörg börn, eignast íbúð og bíl, með garði...íbúðin þeas. Ég vildi helst ala börnin mín upp í sveit

Í dag á ég þrjú börn. Þau eru mín einu raunverulegu verðmæti. Ekki það að ég sé að gera lítið úr þeim verðmætum því að þetta er mesti ríkidómur sem ég get hugsað mér. Án þeirra væri ég afskaplega lítils virði í þessum heimi. Heimi þar sem allt þrífst á neikvæðni, kvarti og depurð og það oft yfir hlutum sem skipta raunverulega engu máli.

Í byrjun þessa árs hélt ég að líf mitt væri loksins eins og mig hafði alltaf dreymt um að það yrði. í lífi mínu voru þrjár konur sem fullkomnuðu líf mitt að því er ég taldi. Hún yndislega móðir mín sem er nú fallin frá, kærastan og svo drottningin sjálf, og nafna hennar mömmu, hún Svandís Katla dóttir mín. Nú er hún Svandís Katla ein um að fylla upp í kvenrými minnar veraldar. Það tekst henni reyndar án nokkurra vandamála. Ég sé mömmu mína í henni og hún Svandís Katla er mjög nösk á að sjá það hvenær pabba gamla vantar knús frá henni og þá sparar hún það ekki og splæsir nokkrum kossum með.

Draumurin sem ég átti sem strákur er enn til staðar, en þetta er draumur sem aldrei verður að veruleika. Í dag er sonur minn fimm ára gamall. Í draumum mínum eyddi ég afmælisdögum barna minna með þeim. Staðan er bara sú að ég er að bíða eftir að afmælisveislu sonar míns ljúki svo ég geti farið með pakka til hans. Þótt börnin mín séu eins fullkomin og hægt sé að hugsa sér, bæði í fegurð og persónuleika þá er stórt tóm í mínu lífi varðandi þau. Planið var aldrei að verða helgarpabbi. Á nokkura ára fresti mun ég fá að njóta þess að vera með þau á afmælisdegi þeirra og öðrum stórum dögum, en annars þarf ég að treysta á að fá að hitta þau á þeim dögum, og það hefur ekki alltaf gengið eftir, og allra síst án átaka.

Draumurinn um börnin hefur ræst, konurnar hef ég átt nokkrar, íbúðina og bílinn svo það er kannski rétt að segja að draumurinn hafi ræst eftir allt saman? Nei ég get ekki sagt það. Ég hef alltaf sagt (alltaf lesist sem eftir að ég þroskaðist smá) að maður á að vera þakklátur fyrir það sem maður á. Og guð veit að ég þakka daglega fyrir börnin mín. Það er bara sárar en orð geta lýst að þurfa að vera fjarlægi pabbinn, að þurfa að sætta sig við að vera faðir í hlutastarfi. Það er eitthvað sem ég mun aldrei sætta mig við og það var hálfgert sjokk þegar ég áttaði mig á því að hann Birnir Smári minn er orðinn fimm ára...árin líða og börnin eldast og það virðist ekkert vera neitt sem ég get gert til þess að fá börnin mín meira. Áður en ég veit af verða börnin mín "litlu" komin í grunnskóla, Yngvi minn í háskóla og ég orðinn miðaldra maður sem upplifði aldrei stóra drauminn minn, að vera besti pabbi í heimi, besti maki og búa með öllum mínum gullum.

En það lærir maður með tímanum að sumir draumar verða bara draumar, eins og aðrir rætast. Draumurinn að eignast börnin hefur ræst, og það sem ég hef lært með hann Yngva minn að það að vera pabbi stoppar ekki, eða verður minna mikilvægt þótt börnin eldist. Það hef ég einmitt lært af foreldrum mínum, þau hafa ekki síður verið mér ómetanleg eftir að ég varð fullorðinn. Ég hef því sett mér það sem markmið að rífa mig upp úr vælinu og njóta þess að vera sá pabbi sem ég get verið (er ekki mottó bandaríska hersins "be all you can be". Þegar allt kemur til alls þá væri það rosalega lélegt af mér að vera að vorkenna mér fyrir mína stöðu í dag því að ég er að hluta til ábyrgur fyrir henni eins og nánast öllu sem gerist í mínu lífi. Staðreyndin er líka sú að ég er heilbrigður maður, á vonandi slatta af árum eftir, á þrjú heilbrigð börn og svo margt annað til að vera sáttur við.

Innilega til hamingju með daginn elsku Birnir minn. Þú ert yndislegur stór afleggjari að eiga!


Ráðgjafar götunnar

Kannast þú við manneskjuna sem er alltaf tilbúin til að gefa ráð? Þessa sem veit hvað hún á að ráðleggja þér þótt hún viti ekki staðreyndir málsins, þekkir ekki aðstæður og veit hreinlega ekki hvað hún er að tala um? Þessi manneskja einfaldlega þarf ekki að vita neitt af því að hún veit allt og getur gefið ráð um allt. Þessi manneskja hefur skoðun á öllum og er tilbúin að deila því með þér, en ekki til að segja sína skoðun heldur til að fá þig á sitt band.

Þessi manneskja VERÐUR líka að segja sitt álit og sína hlið algerlega óháð stað og stund. Það skiptir ekki máli hver tímasetning eða staða þín er. Hlið þessarar manneskju skal koma fram óháð því hverjar afleiðingarnar eru fyrir aðra. Þessi manneskja yfirgnæfir yfirleitt flesta aðra þegar hún er í hóp og ef þú ert ósammála þá þarf að ræða það þá og þar sem þú ert óháð því hvort það sé í raun staður eða stund fyrir það.

Ég hef kannast við nokkrar svona manneskjur í gegnum tíðina. Þær hafa oft stjórnast af hvötum sem ég hef aldrei skilið og skelfilega oft hafa þær náð að gera mikinn skaða. Þegar ég var ungur og óharðnaður, nýskilinn eftir langt samband, þá kynntist ég svona manneskju. Í meðvirkni minni elti ég ráð þessarar manneskju og kom það mér í þá stöðu að ég gerði ótrúlegustu mistök og heimskupör. Síðan þá er mikið vatn runnið til sjávar og ég hef forðast í lengstu löð að hafa svona manneskjur í mínu lífi. Þegar á reynir þarf maður manneskju sem getur sest niður með þér og metið stöðuna.

Að gefa fólki ráð getur verið ábyrgð og að ráðskast með tilfinningar annara er merki um egið óöryggi. Það að þurfa að hugsa málið, áður en þú segir þína skoðun, sýnir að þú vilt gera vel í því að ráðleggja þeim er leita ráða. Þetta er pæling sem er búin að leita á mig í góðan tíma og ég varð að koma frá mér.


Maðurinn ákvarðar en guð ræður

Mér finnst eins og það séu margir mánuðir síðan 21. Janúar var. Þann dag kvaddi hún móðir mín. Það tók mig nokkra daga að átta mig á því að ég væri ekki illur þótt ég finndi fyrir létti. Léttirinn var ekki yfir því að hún væri látin. Léttirinn var vegna þess að nú þyrftum við ekki lengur að hafa áhyggjur af þessari sterku konu. Þó svo að hún bæri sig oftast vel, og risi upp úr ótrúlegustu raunum þá þurfti hún að ganga í gegnum svo rosalegan sársauka að enginn sem ekki hefur gengið í gegnum þetta getur ímyndað sér það. Léttirinn kom af því að nú var komin vissa í stað óvissu. Það óhjákvæmlega gerðist og hún kvaddi og áhyggjurnar yfir því hvenær hún myndi látast voru farnar. Þetta eru allt rosalega furðulegar og framandi hugsanir sem hafa verið í kollinum á mér og nú er komin smá ljósglæra í kollinn á mér aftur. Ég tók margar ákvarðanir á þessum stundum.

Síðan 21. Janúar hefur þó svo margt annað gerst sem mig grunaði ekki og er algerlega ótengt andláti móður minnar. Á 25 dögum hefur farið fram ótrúleg barátta við að halda höfðinu upp úr vatninu. Það er þó ekki það sem ég er að fara að skrifa um. Enda hafði það ekkert að gera með mínar ákvarðanir

Þeir segja að þegar á reynir, komi í ljós hverja maður getur treyst á. Hverjir eru raunverulegir vinir manns. Mér skilst að þá skilji vinir manns sig frá kunningjum, félögum og öðrum sem maður umgengst einnig. Á sama tíma og ég var að missa alla þá tilveru sem ég þekki út úr höndunum á mér komst ég að því að ég er moldríkur af góðu fólki í kringum mig.
Einhvern veginn þá er það sem betur fer oftast þannig að hlutirnir bjargast á endanum. Oft gerist það með því að vinir stígi upp og rétti mann af. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst hjá mér undanfarið og það er svo magnað með það að eins ólíkir vinirnir eru og þeir eru margir. Hvað hver getur gefið af sér er svo misjafnt. Það gildir þó einu í þeirri stöðu sem ég hef verið í þar sem hver og einn hefur gefið þann stuðning sem hægt var að vonast eftir. Ég ákvað að vera þolinmóður og gefa öllu sinn tíma.

Það sem ég lagði upp með að skrifa var það hvernig vinir mínir tækluðu stöðuna. Daginn sem mamma dó og næstu daga létu þau mig öll vita að þau væru til staðar ef þyrfti, en gáfu annars það rúm sem ég þurfti. Þegar ég var að verða viðþolslaus heima brást hver og einn við með sínum hætti. Einn stakk upp á að kíkja og horfa á fótboltaleik, annar pílu, annar hanga yfir video, þriðji spjalla, fjórði sá til þess að ég fengi aðstoð, ráð og stuðning, sem ég klárlega þurfti, og aðrir einfaldlega voru til staðar með því að vera reglulega í sambandi.

Góðir vinir hafa nánast alltaf þá eiginleika að taka sjálfstæða afstöðu til þess sem sagt er við þá. Mínir vinir eru duglegir að velta upp mögulegum ástæðum, lausnum og eru alltaf meðvitaðir um að það eru tvær hliðar á sama peningnum. Góðir vinir stíga líka inn í þegar þeim finnst nóg komið og segja manni hluti sem maður vill ekkert endilega heyra, en þeir fyrirgefa manni líka að taka sjálfstæða ákvörðun þótt hún sé ekki í samræmi við þeirra skoðun. Ég ákvað að hlusta á vinina

Það er ljóst að þegar maður hefur svona vini þá er ansi fátt sem getur bugað mann og ég ákvað að bæta því á markmiðalistann hjá mér að gera einn hlut fyrir sumarið fyrir hverja og eina af þessum manneskjum til að sýna þeim hve þakklátur ég er þeim.

Ég ákvað líka að slaka á og láta hlutina ráðast. Því svo margar ákvarðanir sem ég hef tekið undanfarið hafa fallið um sjálfar sig. það var ekki í mínum höndum.


Sorgin

Það var rosalegt áfall fyrir okkur öll þegar mamma greindist með krabbamein í beinum og eitlum. Nokkrum árum áður hafði hún fengið brjóstakrabbamein en allt virtist horfa betur við og við héldum öll að hún færi að fara að njóta lífsins með honum pabba mínum um ókomin ár. Svo reyndist ekki vera. Það var strax ljóst að þetta var ólæknandi. Þessar fréttir komu fljótlega eftir að í ljós kom að dóttir mín væri komin undir..sem síðar fékk nafnið hennar ömmu sinnar. Þegar ég fer yfir tímann frá því mamma greindist þá finnst mér vera liðin tíu ár í það minnsta, svo mikið hefur gerst í mínu lífi síðan þá. Samt finnst mér svo stutt síðan mamma mín hóf þessa baráttu, sem nú er lokið.

Ég hef alltaf verið mikill mömmustrákur og það hefur ekkert breyst þótt ég eigi þrjú börn og sé kominn með grátt í skeggið. Ég gat alltaf treyst á mömmu mína og þannig var það allt til loka lífs hennar. Fljótlega eftir að mamma greindist fór ég að lifa mínu lífi á allt annan veg en ég hefði viljað. Mistökin sem ég hef gert á hennar sjúkdómsgöngu hafa verið ótalmörg og mörg kostað mig mikið. Það sem ég áttaði mig ekki á fyrr en núna nýlega var það að þær tilfinningar sem vöknuðu við að fá þær upplýsingar að móðir mín væri að berjast við sjúkdóm sem myndi að lokum leggja hana tók meira á mig en ég hélt. Ég hélt að þar sem ég væri fullorðinn maður þá ætti ég að geta ráðið við þetta, jafnvel þó að þegar til baka er horft, sé það mjög ljóst að svo var ekki.

Hún elskulega mamma mín barðist ótrúlega við þennan sjúkdóm, og mun...mikið mun lengur en nokkur hafði búist við. Oft veiktist hún illa og lá dögum saman inni á spítala. Það voru margar stundirnar sem ég kom mér fyrir einhverstaðar einn, felldi nokkur tár, og stóð svo upp aftur og lét eins og ekkert væri. Inni í mér hlóðst þó alltaf upp meiri og meiri kvíði og meiri hræðsla við að í næsta skipti myndi mamma ekki rísa upp aftur. Aftur og aftur reis hún upp aftur, en við vissum að þó við værum svo óendanlega heppin að hún myndi ganga út af spítalanum einn daginn laus við þennan skelfilega sjúkdóm. Sársaukin var oft mikill að horfa upp á hana þjást, en klárlega aldrei í líkingu við það sem hún fann. Eitt skiptið varð hún fyrir svo miklum lyfjabruna að hún missti húð af höndum og iljum og brenndist á munni, hálsi og fleiri stöðum. Ekki svo löngu síðar var hún komin á „fullt“

Í haust fór svo að halla undan fæti hjá henni og gerðist það frekar hratt miðað við það sem á undan var gengið. Alltaf hélt ég að ég væri að vinna vel í mér varðandi sjúkdóminn hennar og alltaf hélt ég að ég fengi meiri tíma með henni. Það sem ég ekki áttaði mig á var það að sá draumur sem ég var loksins að verða að veruleika varð að engu. Neikvæðnin, svartsýnin og þyngslin hlóðust upp og kvíðinn varð að risastórum bolta inni í mér. Lifir mamma næstu jól? Kemur mamma heim úr ferðinni lifandi? Hvað með þetta og hvað með hitt. Ég vildi að einhver hefði haft vit fyrir mér síðustu mánuði og sagt mér að það sem ég væri að gera væri rangt...að þetta væri meira en ég réði við. Ef svo væri þá væri staðan mín í dag svo allt allt önnur. Í staðinn fyrir að finna mér aðstoð til að vinna úr þessum tilfinningum á hlóð ég mér upp risa vegg sem ég hélt alltaf uppi innan um fólk, þar til ég kom heim, en þar losnaði svo út pirringur, svekkelsi, frekja og barnaleg framkoma.

Í staðinn fyrir að fá aðstoð aðila sem þekkja inn á þennan heim þá ætlaðist ég alltaf til meira og meira af konunni minni. Þegar henni tókst ekki að lina kvíðann inni í mér þá ýtti ég meira á hana, hún hlyti að geta aðstoðað mig og staðið með mér. Á endanum var konan mín komin út í horn. Sama hvað hún reyndi þá dugði það ekki til að aðstoða mig. Sama hvað hún sagði þá var það ekki nóg og sama hvað hún gerði, þá var það ekki það sem mig vantaði. Ég veit....Þetta hljómar eins og ég sé heimsins mesti skíthæll.

Þetta endaði að sjálfsögðu bara á einn veg. Konan sem hefur allt sem mig hafði ekki einu sinni þorað að dreyma um sagði stopp daginn sem móðir mín var kistulögð. Enn og afturvar það sama uppi á teningnum. Hún náði ekki að lina sársaukann og stóðst því ekki væntingar sem að sjálfsögðu voru á engan hátt raunhæfar.

Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta, og opinbera mínar vitleysur, er sú að barátta móður minnar við sjúkdóm sinn varð barátta mín við sjálfan mig á sama tíma. Í stað þess að styrkja mig og fá þá aðstoð sem ég þurfti að fá til að skilja hvað væri í gangi þá hélt ég að ég gæti farið í gegnum þetta sjálfur...fullorðinn maðurinn. Staðreyndin er sú að þegar hún elskulega mamma mín lést þá var það ekki bara byrjunin að sorgarferli heldur byrjunin að lokum alls sem gerði líf mitt svo gott. Ég brotnaði niður þegar mamma kvaddi og stuttu síðar hélt ég heim á leið. Þar hélt ég að sorgin ætti að taka við og ég ætti að sitja rólegur og syrgja móður mína. Sorgin kom ekki heldur fann ég að eitthvað meira var farið. Nokkrum dögum síðar komst ég að því hvað það var. Þá áttaði ég mig á því að einhverra hluta vegna þá leið mér aðeins betur eftir að mamma dó...Kvíðahnúturinn var farinn. Þá blossaði upp samviskubit yfir að líða eitthvað betur. Hvers konar sonur er ég ef mér líður eitthvað betur þegar ég missi móður mína. Við tók algert „meltdown“ sem kom mér í þá stöðu sem ég er í í dag.

Við tók tími sjálfsgagnrýni og reiði þar til ég náði smá skýrri hugsun. Léttirinn var ekki yfir að mamma væri farin. Léttirinn var yfir að mamma myndi ekki þjást aftur eins og hún hafði gert svo mikið síðustu ár sín.
Það tók mig tíma að átta mig á því að mér dugði ekki að bíta á jaxlinn. Ekki þótt ég sé fullorðinn tveggja metra maður. Það hefur bara einfaldlega ekkert með málið að gera. Ég var litaður af því viðhorfi sem hefur verið svo mikið í kringum mig í gegnum tíðina. Maður vinnur bara úr hlutunum sjálfur og heldur þeim áfram. Ég hef svo oft heyrt fólk ræða um einhvern sem líður illa og gengur illa að vinna úr aðstæðum og lýsa því yfir hve mikill aumingi hann/hún er og hann/hún eigi bara að bíta á jaxlinn og halda áfram.

Ég vona innilega að einhver, sem er svo óheppinn að vera í sömu stöðu og ég var í, lesi þetta og geti jafnvel áttað sig áður en hann missir eitthvað sem honum er kært. Jú það hefði komið mér á leiðarenda að bíta á jaxlinn og halda áfram. Það hefði gert það á endanum en ég veit ekki hve mörgum ég hefði þurft að láta líða illa í kringum mig áður en það gerðist. Sem betur fer á ég góða vini að sem hafa getað leiðbeint mér og bent á aðila sem getur hjálpað mér með þetta, því að minn missir er orðinn mun meiri en ég hef ráð á fyrir sálartetrið.

Sorgin er eitthvað sem allir þurfa að upplifa á sinni ævi. Hún er sársaukafull og það er ekki hægt að forðast það að líða illa. Við getum aftur á móti passað upp á það að við missum ekki tökin. En....maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og þetta er minn nýjasti lærdómur.


« Fyrri síða

Um bloggið

Óskar

Höfundur

Óskar
Óskar

38 ára gutti. Faðir þriggja fallegra barna, sonur, bróðir og eflaust eitthvað fleira sem hægt er að klína á mig

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...dscn0840
  • Tríoið mitt
  • ...img_5865
  • Ofsalega ertu skrítinn pabbi
  • IMG_6087

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 576

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband