Sorgin

Það var rosalegt áfall fyrir okkur öll þegar mamma greindist með krabbamein í beinum og eitlum. Nokkrum árum áður hafði hún fengið brjóstakrabbamein en allt virtist horfa betur við og við héldum öll að hún færi að fara að njóta lífsins með honum pabba mínum um ókomin ár. Svo reyndist ekki vera. Það var strax ljóst að þetta var ólæknandi. Þessar fréttir komu fljótlega eftir að í ljós kom að dóttir mín væri komin undir..sem síðar fékk nafnið hennar ömmu sinnar. Þegar ég fer yfir tímann frá því mamma greindist þá finnst mér vera liðin tíu ár í það minnsta, svo mikið hefur gerst í mínu lífi síðan þá. Samt finnst mér svo stutt síðan mamma mín hóf þessa baráttu, sem nú er lokið.

Ég hef alltaf verið mikill mömmustrákur og það hefur ekkert breyst þótt ég eigi þrjú börn og sé kominn með grátt í skeggið. Ég gat alltaf treyst á mömmu mína og þannig var það allt til loka lífs hennar. Fljótlega eftir að mamma greindist fór ég að lifa mínu lífi á allt annan veg en ég hefði viljað. Mistökin sem ég hef gert á hennar sjúkdómsgöngu hafa verið ótalmörg og mörg kostað mig mikið. Það sem ég áttaði mig ekki á fyrr en núna nýlega var það að þær tilfinningar sem vöknuðu við að fá þær upplýsingar að móðir mín væri að berjast við sjúkdóm sem myndi að lokum leggja hana tók meira á mig en ég hélt. Ég hélt að þar sem ég væri fullorðinn maður þá ætti ég að geta ráðið við þetta, jafnvel þó að þegar til baka er horft, sé það mjög ljóst að svo var ekki.

Hún elskulega mamma mín barðist ótrúlega við þennan sjúkdóm, og mun...mikið mun lengur en nokkur hafði búist við. Oft veiktist hún illa og lá dögum saman inni á spítala. Það voru margar stundirnar sem ég kom mér fyrir einhverstaðar einn, felldi nokkur tár, og stóð svo upp aftur og lét eins og ekkert væri. Inni í mér hlóðst þó alltaf upp meiri og meiri kvíði og meiri hræðsla við að í næsta skipti myndi mamma ekki rísa upp aftur. Aftur og aftur reis hún upp aftur, en við vissum að þó við værum svo óendanlega heppin að hún myndi ganga út af spítalanum einn daginn laus við þennan skelfilega sjúkdóm. Sársaukin var oft mikill að horfa upp á hana þjást, en klárlega aldrei í líkingu við það sem hún fann. Eitt skiptið varð hún fyrir svo miklum lyfjabruna að hún missti húð af höndum og iljum og brenndist á munni, hálsi og fleiri stöðum. Ekki svo löngu síðar var hún komin á „fullt“

Í haust fór svo að halla undan fæti hjá henni og gerðist það frekar hratt miðað við það sem á undan var gengið. Alltaf hélt ég að ég væri að vinna vel í mér varðandi sjúkdóminn hennar og alltaf hélt ég að ég fengi meiri tíma með henni. Það sem ég ekki áttaði mig á var það að sá draumur sem ég var loksins að verða að veruleika varð að engu. Neikvæðnin, svartsýnin og þyngslin hlóðust upp og kvíðinn varð að risastórum bolta inni í mér. Lifir mamma næstu jól? Kemur mamma heim úr ferðinni lifandi? Hvað með þetta og hvað með hitt. Ég vildi að einhver hefði haft vit fyrir mér síðustu mánuði og sagt mér að það sem ég væri að gera væri rangt...að þetta væri meira en ég réði við. Ef svo væri þá væri staðan mín í dag svo allt allt önnur. Í staðinn fyrir að finna mér aðstoð til að vinna úr þessum tilfinningum á hlóð ég mér upp risa vegg sem ég hélt alltaf uppi innan um fólk, þar til ég kom heim, en þar losnaði svo út pirringur, svekkelsi, frekja og barnaleg framkoma.

Í staðinn fyrir að fá aðstoð aðila sem þekkja inn á þennan heim þá ætlaðist ég alltaf til meira og meira af konunni minni. Þegar henni tókst ekki að lina kvíðann inni í mér þá ýtti ég meira á hana, hún hlyti að geta aðstoðað mig og staðið með mér. Á endanum var konan mín komin út í horn. Sama hvað hún reyndi þá dugði það ekki til að aðstoða mig. Sama hvað hún sagði þá var það ekki nóg og sama hvað hún gerði, þá var það ekki það sem mig vantaði. Ég veit....Þetta hljómar eins og ég sé heimsins mesti skíthæll.

Þetta endaði að sjálfsögðu bara á einn veg. Konan sem hefur allt sem mig hafði ekki einu sinni þorað að dreyma um sagði stopp daginn sem móðir mín var kistulögð. Enn og afturvar það sama uppi á teningnum. Hún náði ekki að lina sársaukann og stóðst því ekki væntingar sem að sjálfsögðu voru á engan hátt raunhæfar.

Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta, og opinbera mínar vitleysur, er sú að barátta móður minnar við sjúkdóm sinn varð barátta mín við sjálfan mig á sama tíma. Í stað þess að styrkja mig og fá þá aðstoð sem ég þurfti að fá til að skilja hvað væri í gangi þá hélt ég að ég gæti farið í gegnum þetta sjálfur...fullorðinn maðurinn. Staðreyndin er sú að þegar hún elskulega mamma mín lést þá var það ekki bara byrjunin að sorgarferli heldur byrjunin að lokum alls sem gerði líf mitt svo gott. Ég brotnaði niður þegar mamma kvaddi og stuttu síðar hélt ég heim á leið. Þar hélt ég að sorgin ætti að taka við og ég ætti að sitja rólegur og syrgja móður mína. Sorgin kom ekki heldur fann ég að eitthvað meira var farið. Nokkrum dögum síðar komst ég að því hvað það var. Þá áttaði ég mig á því að einhverra hluta vegna þá leið mér aðeins betur eftir að mamma dó...Kvíðahnúturinn var farinn. Þá blossaði upp samviskubit yfir að líða eitthvað betur. Hvers konar sonur er ég ef mér líður eitthvað betur þegar ég missi móður mína. Við tók algert „meltdown“ sem kom mér í þá stöðu sem ég er í í dag.

Við tók tími sjálfsgagnrýni og reiði þar til ég náði smá skýrri hugsun. Léttirinn var ekki yfir að mamma væri farin. Léttirinn var yfir að mamma myndi ekki þjást aftur eins og hún hafði gert svo mikið síðustu ár sín.
Það tók mig tíma að átta mig á því að mér dugði ekki að bíta á jaxlinn. Ekki þótt ég sé fullorðinn tveggja metra maður. Það hefur bara einfaldlega ekkert með málið að gera. Ég var litaður af því viðhorfi sem hefur verið svo mikið í kringum mig í gegnum tíðina. Maður vinnur bara úr hlutunum sjálfur og heldur þeim áfram. Ég hef svo oft heyrt fólk ræða um einhvern sem líður illa og gengur illa að vinna úr aðstæðum og lýsa því yfir hve mikill aumingi hann/hún er og hann/hún eigi bara að bíta á jaxlinn og halda áfram.

Ég vona innilega að einhver, sem er svo óheppinn að vera í sömu stöðu og ég var í, lesi þetta og geti jafnvel áttað sig áður en hann missir eitthvað sem honum er kært. Jú það hefði komið mér á leiðarenda að bíta á jaxlinn og halda áfram. Það hefði gert það á endanum en ég veit ekki hve mörgum ég hefði þurft að láta líða illa í kringum mig áður en það gerðist. Sem betur fer á ég góða vini að sem hafa getað leiðbeint mér og bent á aðila sem getur hjálpað mér með þetta, því að minn missir er orðinn mun meiri en ég hef ráð á fyrir sálartetrið.

Sorgin er eitthvað sem allir þurfa að upplifa á sinni ævi. Hún er sársaukafull og það er ekki hægt að forðast það að líða illa. Við getum aftur á móti passað upp á það að við missum ekki tökin. En....maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og þetta er minn nýjasti lærdómur.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Óskar

Höfundur

Óskar
Óskar

38 ára gutti. Faðir þriggja fallegra barna, sonur, bróðir og eflaust eitthvað fleira sem hægt er að klína á mig

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...dscn0840
  • Tríoið mitt
  • ...img_5865
  • Ofsalega ertu skrítinn pabbi
  • IMG_6087

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband